Erlent

Þrjá­tíu særðust í drónaárás á far­þega­lest

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Gríðarmiklar skemmdir eru á lestinni.
Gríðarmiklar skemmdir eru á lestinni. AP

Að minnsta kosti þrjátíu særðust í drónaárás Rússa á lestarstöð í Úkraínu. Úkraínuforseti kallar eftir að vestræn ríki standi við yfirlýsingarnar sínar.

„Grimmileg rússnesk drónaárás á lestarstöðina í Shostka í Sumy-héraði. Alir viðbragðsaðilar eru þegar komnir á vettvang og hafa hafið að aðstoða fólk,“ skrifar Vólódimír Selenskí, forseti Úkraínu, á samfélagsmiðilinn X. 

Selenskí segir að vitað sé um þrjátíu fórnarlömb árásarinnar samkvæmt bráðabirgðaskýrslu. Fórnarlömbin voru bæði starfsfólk lestarstöðvarinnar og farþegar. Tveimur drónum var flogið á lestarstöðina og hæfðu þeir tvær lestir. Á meðal særðra eru þrjú börn, átta, ellefu og fjórtán ára samkvæmt BBC.

Seinna skotið hæfði lestina eftir að fólk hafði tekið til að rýma lestarstöðina.

„Rússar gátu ekki verið ómeðvitaðir um að þeir voru að ráðast á óbreytta borgara. Og þetta er hryðjuverk sem við getum ekki hunsað. Á hverjum degi taka Rússar líf fólks.“

Hann kallar eftir því að Evrópuríki og Bandaríkin standi við yfirlýsingarnar sínar. Nauðsynlegt sé að ráðast í aðgerðir.

Með færslunni lét Selenskí myndskeið af lestinni fylgja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×