Upp­gjörið: ÍBV - Aftur­elding 1-1 | Bæði mörkin skoruð beint úr aukaspyrnu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Breiðablik - ÍBV Besta Deild Karla Haust 2025
Breiðablik - ÍBV Besta Deild Karla Haust 2025 vísir/Diego

Afturelding sótti mikilvægt stig til Vestmannaeyja með 1-1 jafntefli gegn ÍBV. Bæði mörkin voru skoruð beint úr aukaspyrnu en Eyjamenn eru eflaust svekktir að hafa ekki klárað leikinn áður en Afturelding fékk tækifæri til að jafna á lokamínútunum.

Vindasamt var í Vestmannaeyjum meðan á leiknum stóð og liðin áttu erfitt með að tengja saman sendingar. Fá færi voru sköpuð en heimamenn voru hættulegri aðilinn og ógnuðu marki gestanna mun meira en öfugt.

Eyjamenn komust yfir og hefðu getað bætt við

Jökull Andrésson í marki Aftureldingar þurfti nokkrum sinnum að hafa sig við en staðan var enn markalaus um miðjan seinni hálfleik.

Þá fékk ÍBV aukaspyrnu, af svona þrjátíu metra færi en með vindinn í bakið.

Fyrirliðinn Alex Freyr Hilmarsson lét vaða og skaut glæsilegu skoti sem sveif við samskeytin á leið sinni í netið.

Eftir að hafa lent undir þurfti Afturelding að auka sóknarþungann og í leiðinni opnaðist vörnin, sömuleiðis tapaði liðið boltanum oft á eigin vallarhelmingi þegar það reyndi að spila sig upp völlinn. Eyjamenn fengu þannig nokkur tækifæri til að tvöfalda forystuna og gera út af við leikinn, en nýttu sér ekki.

Afturelding jafnaði úr aukaspyrnu

Afturelding fékk svo aukaspyrnu á stórhættulegum stað þegar Sigurður Arnar braut niður skyndisókn á lokamínútum leiksins.

Aron Jóhannsson steig upp og skoraði jöfnunarmarkið, einnig beint úr aukaspyrnu. Krullaði boltann í mótvindi yfir vegginn og horfði á hann detta niður í netið.

Stigi bjargað með rauðu spjaldi 

Staðan var því jöfn þegar uppbótartíminn gekk í garð en Eyjamenn voru næstum því búnir að setja sigurmarkið.

Hermann Þór Ragnarsson slapp inn fyrir vörnina en Georg Bjarnason tók þá taktísku ákvörðun að fella hann og fá rautt spjald.

Vicente Valor tókst síðan ekki að setja þriðja aukaspyrnumarkið, þrátt fyrir mjög fína tilraun sem rataði á markið, og leiknum lauk með 1-1 jafntefli.

Afturelding enn neðst en græðir gott stig

Afturelding er enn í neðsta sæti deildarinnar en græðir gott stig og er nú aðeins tveimur stigum frá KR, sem var að tapa sínum leik á móti KA.

ÍA sótti sigur gegn Vestra í gær og er stigi fyrir ofan KR, þremur fyrir ofan Aftureldingu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira