Erlent

Mót­mæla hug­myndum um inn­limun nær alls Vesturbakkans

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hugmyndir eru uppi í Ísrael um að innlima um 80 prósent Vesturbakkans.
Hugmyndir eru uppi í Ísrael um að innlima um 80 prósent Vesturbakkans. Getty/Amir Levy

Stjórnvöld í Sameinuðu arabísku furstadæmunum segja að Ísraelsmenn myndu fara yfir „rauða línu“ ef þeir innlimuðu Vesturbakkann. Þá myndi það gera út um möguleikann á svokallaðri „tveggja ríkja lausn“ á deilu Ísrael og Palestínumanna.

Bezalel Smotrich, fjármálaráðherra Ísrael, hefur lagt fram tillögu að innlimun nær alls Vesturbakkans. Um það bil 700 þúsund gyðingar búa nú á Vesturbakkanum og 3,3 milljónir Palestínumanna.

Reistar hafa verið um það bil 160 landtökubyggðir, sem eru ólöglegar samkvæmt alþjóðalögum.

Lana Nusseibeh, háttsettur embættismaður í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, segir áætlun Smotrich grafa undan sáttmála sem Sameinuðu arabísku furstadæmin, Barein og Marokkó gerðu við Ísrael árið 2020.

Sáttmálinn, kenndur við Abraham, fól meðal annars í sér að þáverandi ríkisstjórn Benjamin Netanyahu hét því að setja allar fyrirætlanir um að innlima hluta Vesturbakkans á hilluna.

Margir núverandi samstarfsmenn Netanyahu hafa hins vegar löngum talað fyrir innlimun svæðisins, að hluta eða í heild. Mögulega hafa yfirlýsingar erlendra ríkja um að viðurkenna sjálfstætt Palestínuríki hvatt menn til að hraða slíkum áætlunum.

Netanyahu hefur sjálfur sagt að viðurkenning Palestínu jafngilti því að verðlauna Hamas fyrir árásirnar á byggðir Ísraelsmanna 7. október 2023.

Þegar Smotrich kynnti hugmyndirnar um innlimun sagði hann tímabært að slá hugmyndir um skiptingu landsins og stofnun „hryðjuverkaríkis“ á miðju svæðinu algjörlega út af borðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×