Enski boltinn

Amorim gagn­rýndur fyrir að horfa ekki á vítakeppnina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ruben Amorim horfði í gaupnir sér á meðan vítaspyrnukeppnin í viðureign Grimsby Town og Manchester United fór fram.
Ruben Amorim horfði í gaupnir sér á meðan vítaspyrnukeppnin í viðureign Grimsby Town og Manchester United fór fram.

Athygli vakti að Ruben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, virtist ekki þora að horfa á vítaspyrnukeppnina í leiknum gegn Grimsby Town í enska deildabikarnum í gær.

United mátti þola eitt háðulegasta tap í sögu félagsins þegar það tapaði fyrir D-deildarliði Grimsby í 2. umferð deildabikarsins í gær. Grimsby var 2-0 yfir í hálfleik en United jafnaði með mörkum Bryans Mbeumo og Harrys Maguire og því réðust úrslitin í vítakeppni.

Alls þurfti 26 spyrnur til að knýja fram sigurvegara. Í 13. umferð vítakeppninnar skoraði Darragh Burns fyrir Grimsby og Mbeumo skaut svo í slá.

Pressan á Amorim er mikil og hann virðist heldur betur finna fyrir henni því hann gat varla horft á vítakeppnina. Hann sat í varamannaskýlinu og starði á jörðina.

Margir stuðningsmenn United og aðrir furðuðu sig á þessu athæfi Amorims. Meðal þeirra var Craig Hope, blaðamaður Daily Mail.

„Að Ruben Amorim sitji á varamannabekknum og horfi ekki leikmennina sína taka víti öskrar ekki beint á mann að hann sé leiðtogi. Jafnvel þótt United hefði unnið segir þetta mér að hann sé ekki rétti maðurinn fyrir félagið. Veikt,“ skrifaði Hope.

Í viðtali eftir leikinn virkaði Amorim algjörlega bugaður og gaf í skyn að leikmennirnir hefðu misst trú á honum. Hann talaði meðal annars um að leikmenn United hefðu sent hávær skilaboð með frammistöðu sinni á Blundell Park.

„Ég tel að það sé alveg ljóst hvað þeir voru að segja með þessari frammistöðu. Við höldum áfram en ég held að það sé alveg á tæru hjá öllum hvað gerðist í kvöld,“ sagði Amorim meðal annars.

Næsti leikur United er gegn Burnley á Old Trafford í 3. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á laugardaginn. Síðan kemur landsleikjahlé en áhugavert verður að sjá hvort Amorim verður stjóri United eftir það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×