Erlent

Hótar Hamas með hel­víti og gjöreyðingu Gasa-borgar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Katz hefur verið ómyrkur í máli varðandi örlög Gasa-borgar, gangi Hamas ekki að kröfum Ísrael.
Katz hefur verið ómyrkur í máli varðandi örlög Gasa-borgar, gangi Hamas ekki að kröfum Ísrael. Getty/Chip Somodevilla

Israel Katz, varnarmálaráðherra Ísrael, segir að Gasaborg verði lögð í rúst ef Hamas samtökin samþykkja ekki að leggja niður vopn og sleppa öllum gíslum sem enn eru í haldi.

Stjórnvöld í Ísrael virðast ekki ætla að ganga að samkomulagi sem Hamas-liðar hafa samþykkt, sem kveður á um 60 daga vopnahlé og lausn helmings þeirra gísla sem enn eru í haldi.

Yfirvöld í Ísrael telja að 20 gíslar séu enn á lífi.

Án þess að hafna samkomulaginu hreint út sagðist forsætisráðherrann Benjamin Netanyahu hafa fyrirskipað að samningaviðræður hefðust á ný, um lausn allra gíslanna og endalok átakanna á forsendum sem væru ásættanlegar fyrir Ísrael.

Ríkisstjórnin samþykkti í gær yfirtöku Ísraelshers á Gasa-borg, sem hefur verið harðlega gagnrýnd af alþjóðasamfélaginu. Þá sagði hann að endurheimt gíslanna og algjör sigur á Hamas væru samofin.

Katz ítrekaði hótunina í færslu á samfélagsmiðlum í morgun.

„Innan skamms munu hlið helvítis opnast morðingjum og nauðgurum Hamas á Gasa, þar til þeir ganga að skilmálum Ísrael varðandi endalok stríðsins; þá sérstaklega laus allra gísla og afvopnun samtakanna,“ sagði ráðherrann.

„Ef þeir samþykkja það ekki mun Gasa, höfuðborg Hamas, verða Rafah og Beit Hanoun,“ bætti hann við en báðar borgir hafa verið lagar í rúst í hernaðaraðgerðum Ísraels.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×