Enski boltinn

Liverpool búið að selja leik­menn fyrir meira en 33 milljarða í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liverpool seldi Luis Diaz til Bayern í sumar en hér fagnar hann marki með þeim Mohamed Salah og Curtis Jones.
Liverpool seldi Luis Diaz til Bayern í sumar en hér fagnar hann marki með þeim Mohamed Salah og Curtis Jones. Getty/Peter Byrne

Englandsmeistarar Liverpool hafa verið afar duglegir á leikmannamarkaðnum í sumar en ekki bara við það að eyða pening í nýja leikmenn.

Liverpool hefur einnig selt leikmenn fyrir meira en tvö hundruð milljón punda í sumar eða fyrir meira en 33,3 milljarða króna.

Nú síðast fékk Liverpool tuttugu milljónir punda frá Bournemouth fyrir skoska framherjann Ben Doak.

Liverpool hefur einnig selt Trent Alexander-Arnold til Real Madrid, Caoimhín Kelleher til Brentford, Nat Phillips til West Bromwich Albion, Jarell Quansah til Bayer Leverkusen, Luis Díaz til Bayern München, Tyler Morton til Lyon og Darwin Núñez til Al-Hilal.

Lðið fékk 60 milljónir punda fyrir Luis Díaz, 46 milljónir punda fyrir Darwin Núñez og 30 milljónir punda fyrir Jarell Quansah.

Þrátt fyrir að hafa eytt 290 milljónum punda í nýja leikmenn í sumar þá tryggja þessar sölur það að Liverpool á enn möguleika á því að eyða stórum upphæðum í leikmenn eins og framherjann Alexander Isak frá Newcastle eða miðvörðinn Marc Guéhi frá Crystal Palace.

Liverpool hefur líka eytt litlu sem engu í síðustu gluggum á undan og hefur síðan fengið inn mikinn pening í verðlaunafé þökk sé góðum árangri á síðasta tímabili.

Allt tryggir þetta það að Liverpool nær leikandi að fylgja rekstrareglum ensku úrvalsdeildarinnar þrátt fyrir öll þessi leikmannakaup. Sem dæmi um andstöðu þess er staðan hjá Manchester United sem hefur keypt leikmenn í sumar fyrir meira en tvö hundruð milljón punda án þess að ná að selja neinn leikmann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×