Erlent

Breyti engu á jörðu niðri að viður­kenna sjálf­stæði Palestínu

Agnar Már Másson skrifar
Lars Løkke Rasmussen er utanríkisráðherra Danmerkur.
Lars Løkke Rasmussen er utanríkisráðherra Danmerkur. EPA

Utanríkisráðherra Dana segir að það breytti engu á jörðu niðri þó dönsk stjórnvöld viðurkenndu sjálfstæði Palestínu. 

Þrýstingur hefur aukist á ríkisstjórn Danmerkur, sem og ríkisstjórnir annarra vestrænna ríkja, að fylgja fordæmi Kanadamanna, Frakka og Breta sem hafa sagst ætla viðurkenna sjálfstæði Palestínu, þó með mismunandi skilyrðum.

Danska ríkisútvarpið hefur eftir Martin Lidegaard í flokknum Radikale Venstre (sem er almennt talinn miðju-vinstri flokkur þrátt fyrir nafnið) að hann sé svekktur vegna meints aðgerðaleysis dönsku ríkisstjórnarinnra einkum með tilliti til þess að Danir hafi nýlega tekið við forystu í Evrópusambandinu.

„Jafnvel þó allur hemurinn segði „nú viðurkennum við sjálfstæði Palestínu“ þá er ástandið enn þá þannig að það eru mannúðarhamfarir á Gasa og það mun ekkert hagga við því,“ segir Lars Løkke Ramussen, utanríkisráðherra Dana.

„Ef við ætlum að hagga við því verðum við að auka þrýstinginn á Ísrael,“ bætir ráðherrann við í samtali við TVA í kvöld. „Og það eykur ekki þrýstinginn á Ísrael að við viðurkennum Palestínu táknrænt.“

Rasmussen utanríkisráðherra, sem er úr Moderaterne, sagði í kvöld að „viðurkenning hér og nú yrði táknræn aðgerð sem breytir engu á jörðu niðri.“ 

Afar fá neyðargögn hafa borist inn í Gasa síðan í mars þar sem að Ísrael lokaði flutning þeirra inn á svæðið. Þegar aftur var opnað fyrir flutning neyðargagna bárust þau í smáum skömmtum og í gegnum umdeilda stofnun, þar á meðal Gaza Humanitarian Foundation (GHF) sem nýtur stuðnings Ísraels og Bandaríkjanna.

Ísland viðurkenndi sjálfstæði Paletínu árið 2011. Noregur viðurkenndi sjálfstæði Palestínu í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×