Erlent

Bretar hyggjast viður­kenna Palestínu sem sjálf­stætt ríki

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands hyggst viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki.
Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands hyggst viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki. EPA/Chris J. Ratcliffe

Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, segist ætla að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki í september nema að Ísrael samþykki tveggja ríkja lausnina fyrir þann tíma.

Í yfirlýsingu frá forsætisráðuneyti Breta segir Starmer að ríkisstjórnin hafi lengi trúað því að það væri „ófrávíkjanlegur réttur palestínsku þjóðarinnar“ að vera viðurkennd sem sjálfstætt ríki. Það hefði staðið til að viðurkenna palestínskt ríki sem hluta af friðarferli og tveggja ríkja lausninni.

Yfirlýsingin kom í kjölfar neyðarfundar bresku ríkisstjórnarinnar. Á fundinum á Starmer einnig að hafa sagt að nú væri rétti tíminn til að taka þetta skref vegna minnkandi líkna á að samþykki næðist um tveggja ríkja lausnina, líkt og greint var frá á The Guardian.

„Ég hef alltaf sagt að við munum viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki, til að stuðla að viðvarandi friði, á þeim tíma sem það hefur hvað mest áhrif á tveggja ríkja lausnina“ sagði Starmer.

„Í dag sem hluti af ferlinu í átt að friði get ég staðfest í dag að Bretland muni viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki á þingi Sameinuðu þjóðanna í september.“

Til stendur að viðurkenna Palestínu í september á þingi Sameinuðu þjóðanna, en fyrir einungis fimm dögum tilkynnti Emmanuel Macron Frakklandsforseti að þau hygðust gera slíkt hið sama. Samt sem áður, náist samþykkt um vopnahlé fyrir þingið bygggt á tveggja ríkja lausninni verður svo ekki.

Aðspurður hvers vegna viðurkenning sé skilyrt segir Starmer helsta markmið ríkisstjórnarinnar að „breyta aðstæðunum fyrir fólkið á jörðinni sem nauðsynlega þurfa á breytingu að halda.“ 

„Ég hef sérstakar áhyggjur af því að hugmyndin um tveggja ríkja lausn sé að hverfa og viðrist lengra í burtu í dag en hún hefur verið í mörg mörg ár.“

Mikið neyðarástand ríkir á Gasa þar sem skortur er á mat og öðrum nauðsynjavörum. 

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×