Fótbolti

Hófu titilvörnina á naumum sigri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sigurmarkið kom af vítapunktinum.
Sigurmarkið kom af vítapunktinum. FCKobenhavn

Danmerkurmeistarar FC Kaupmannahafnar hófu titilvörn sína á naumum 3-2 útisigri á Viborg í 1. umferð efstu deildar karla í knattspyrnu. Sigurmarkið skoraði varamaðurinn Magnus Mattsson úr vítaspyrnu á 78. mínútu.

FCK stóð uppi sem tvöfaldur meistari á síðustu leiktíð og pressan því mikil á gestunum þegar leikar hófust í dag. Þrátt fyrir góða byrjun gestanna var það Viborg sem komst yfir eftir að Thomas Delaney gerðist brotlegur innan vítateigs og vítaspyrna dæmd.

Jeppe Grønning fór á punktinn og kom Viborg yfir þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður. Elias Achouri jafnaði metin á 37. mínútu og staðan 1-1 þegar gengið var til búningsherbergja.

Norðmaðurinn Mohamed Elyounoussi kom gestunum yfir snemma í síðari hálfleik eftir undirbúning hægri bakvarðarins Rodrigo Huescas. Heimamenn létu það ekki slá sig út af laginu og jafnaði Mads Søndergaard metin eftir sendingu Grønning á 73. mínútu.

Fimm mínútum síðar virtist brotið á Mattsson innan teigs. Atvikið var skoðað af myndbandsdómara leiksins og vítaspyrna niðurstaðan. Varamaðurinn Mattsson fór sjálfur á punktinn og sá til þess að FCK hóf leiktíðina á sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×