Breska ríkisútvarpið hefur þetta eftir heilbrigðisyfirvöldum á Gasa og lækni á Nasser sjúkrahúsinu í Khan Younis. Alaa al-Najjar heitir barnalæknirinn og var við störf á sjúkrahúsinu þegar lík níu af tíu börnum hennar voru flutt á sjúkrahúsið. Tíunda barnið særðist í árásinni.
Graeme Groom, breskur skurðlæknir sem starfar á sjúkrahúsinu og hlúði að eftirlifandi barni Alaa al-Najjar, segir í samtali við BBC að það sé óbærilega grimmt að hún hafi misst nærri öll börn sín í einni árás eftir að hafa helgað lífi sínu barnalækningum. Elsta barn hennar var tólf ára og barnið sem lifði af er ellefu ára.
Faðir barnanna, sem starfar einnig sem læknir á sjúkrahúsinu, særðist alvarlega í árásinni. Groom sagði í samtali við BBC að faðirinn virtist ekki hafa neinar pólitískar tengingar eða tengingar við herinn. Þá er hann sagður láta lítið fyrir sér fara á samfélagsmiðlum.
Samkvæmt upplýsingum frá Ísraelsher gerði herinn árásir á fjölda skotmarka í Khan Younis í gær. Í yfirlýsingu segir að herinn hafi rýmt Khan Younis áður en þeir hófu árásirnar. Í annarri yfirlýsingu segir að herinn hafi skotið á yfir hundrað skotmörk á Gasa í gær.
Heilbrigðisyfirvöld á Gasa segja minnst 74 hafa látist í árásum Ísraelshers sólarhringinn áður en árásin var gerð á heimili læknanna.
Þá áætla heilbrigðisyfirvöld að nærri 54 þúsund manns í heildina hafi látist frá því að herinn réðst inn á Gasa í október 2023, þar af yfir 16 þúsund börn.