Enski boltinn

Kvennalið Everton mun spila á Goodison sem verður ekki rifinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kvennalið Everton mun færa sig um set á sama tíma og karlaliðið.
Kvennalið Everton mun færa sig um set á sama tíma og karlaliðið. Joe Prior/Getty Images

Frá og með næstu leiktíð mun kvennalið enska knattspyrnufélagsins Everton spila heimaleiki sína á hinum goðsagnakennda Goodison Park. Karlalið félagsins mun á sama tíma færa sig yfir á nýjan og stærri völl.

Líkt og svo mörg félög þarna úti ákvað Everton að henda sögunni út um gluggann og byggja nýjan heimavöll í von um að auka tekjur félagsins. Nýr völlur félagsins mun rísa við Bromley-Moore hafnarbakkann og tekur 53 þúsund manns í sæti.

Upphaflega var stefnt að því að rífa hinn 132 ára gamla Goodison Park en eftir að Friedkin-hópurinn tók við eignarhaldi félagsins í desember var ákveðið að halda rífa ekki þennan sögulega völl.

Goodison, stundum kallaður Guttagarður, tekur rúmlega 39 þúsund manns í sæti. Hann verður þar með stærsti leikvangur Englands sem er eingöngu ætlaður kvennaliði.

„Þessi ákvörðun endurspeglar skuldbindingu og vilja félagsins í að fjárfesta í knattspyrnu kvenna. Þá mun þessi ákvörðun sjá til þess að Goodison Park mun áfram spila stóra rullu í samfélaginu sem og fótboltanum,“ sagði í yfirlýsingu Everton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×