Erlent

Ungi morðinginn flúði ný­verið af vist­heimili

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar að störfum í Uppsölum.
Lögregluþjónar að störfum í Uppsölum. EPA/FREDRIK SANDBERG

Drengurinn sem handtekinn var vegna gruns um að hann hafi myrt þrjá í Uppsölum í Svíþjóð í gær er sextán ára gamall. Allir þrír eru taldir hafa verið skotmörk drengsins en lögreglan skoðar nú hvort fleiri komi að málinu.

Hann er grunaður um að hafa skotið þrjá aðra unga menn til bana á rakarastofu og flúið af vettvangi á rafhlaupahjóli. Samkvæmt því sem SVT hefur eftir lögreglunni í Svíþjóð er talið að allir þrír sem voru myrtir hafi verið skotmörk drengsins en fórnarlömbin voru fimmtán til tuttugu ára gömul.

Einn hinna látnu hefur áður komið við sögu lögreglunnar í tengslum við rannsókn á árás sem beindist gegn fjölskyldumeðlim glæpaforingjans Ismail Abdo.

Drengurinn hafði fyrir tæpum tveimur vikum flúið frá svokölluðu HVB-heimili en það er úrræði félagsmálayfirvalda sem er meðal annars fyrir ungmenni í fíknivanda.

SVT segir einnig að drengurinn hafi verið færður á áðurnefnt heimili fyrir um þremur vikum síðan. Þar hafi hann þó einungis haldið til í nokkra daga áður en hann flúði og hafði hann verið týndur þar til hann var handtekinn á heimili fjölskyldu hans í gærkvöldi.

Aftonbladet hefur eftir heimildarmönnum sínum að þegar hann var handtekinn hafi drengurinn verið að reyna að þrífa fötin sín með klór.

Búið var að taka ákvörðun um að finna drenginn og koma honum aftur í vörslu félagsmálayfirvalda en ekki var nægur tími til þess áður en hann var handtekinn.

Gunnar Strömmer, dómsmálaráðherra Svíþjóðar, segir að ef heimildir SVT séu réttar, sé þetta kunnuglegt mynstur. Glæpasamtök leiti reglulega til barna á heimilum sem þessum eða sambærilegum stofnunum og ráði þau til glæpaverka.

Lögreglan í Svíþjóð varaði í fyrra við því að nokkur HVB heimili voru í raun rekin af mönnum með tengsl við skipulagða glæpastarfsemi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×