Þetta hafa blaðamenn AP eftir þremur heimildarmönnum. Óreiðukennd embættistíð Pete Hegseth hefur síðustu daga vakið athygli en hann hefur meðal annars verið gagnrýndur fyrir að segja frá yfirvofandi loftárásum á samskiptaforritinu Signal, bæði í hópi háttsettra embættismanna, og eins blaðamanns, og í persónulegum hópi sem innihélt meðal annars eiginkonu hans og bróður.
Hegseth er til rannsóknar vegna samskipta hans og annarra háttsettra embættismanna á Signal en sú rannsókn hófst áður en í ljós kom að hann átti einnig samskiptum um árásirnar á Húta.
Nýjustu vendingar í því máli eru þær að Hegseth notaði samskiptaforritið á óvarinni nettengingu í persónulegri tölvu sinni í Varnarmálaráðuneytinu, eða Pentagon. Vegna þess hafi háleynilegar varnarmálaupplýsingar verið líklegri til að verða undir í tölvuárásum og njósnum en ella.
Í umfjöllun AP segir að um ræði svokallaða „óhreina“ nettengingu, sem tengi tæki beint við almenningsnetið í ráðuneytinu. Þar séu ekki fyrir hendi sömu öryggisstaðlar og í nettengingu Pentagon og því auknar líkur á tölvuárásum og njósnum.
Starfsmenn ráðuneytisins hafa notast við nettenginguna til að komast inn á vefsíður sem nettenging ráðuneytisins hefur lokað fyrir vegna öryggisstaðla.
Heimildarmenn AP segja Hegseth hafa látið tengja hina „óhreinu“ nettengingu í skrifstofu sinni til að komast inn á Signal. Sem fyrr segir er hann sakaður um að birta viðkvæmar upplýsingar um loftárásir í tveimur hópspjöllum. Bæði spjöllin hafi talið meira en tólf manns, allt frá embættismönnum til fjölskyldumeðlima Hegseth.
Aðspurður um samskiptamiðlanotkun Hegseth í ráðuneytinu sagði Sean Parnell, aðaltalsmaður Pentagon, hana vera trúnaðarmál. „Aftur á móti getum við staðfest að hann hefur aldrei notað Signal í vinnutölvunni sinni,“ sagði Parnell í yfirlýsingu.
Hegseth hefur undanfarna daga rekið þó nokkra af sínum helstu ráðgjöfum í ráðuneytinu og sakað þá um að leka upplýsingum í blaðamenn.
Þrátt fyrir allt hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti lýst yfir stuðningi með Hegseth og neitað að um trúnaðarbrest hafi verið að ræða.