Greint var frá því í kvöldfréttum í gær að átján ára piltur hefði verið tekinn á Keflavíkurflugvelli með þrettán kíló af kókaíni. Fjölmargir hafa verið handteknir á landamærunum í Keflavík vegna fíkniefnainnflutnings en fyrir rúmum tveimur vikum voru tvær unglingsstúlkur teknar þar sem þær reyndu að smygla tuttugu þúsund töflum af gerviópíóðum til landsins.
Valgerður Rúnarsdóttir yfirlæknir á Vogi segist uggandi yfir stöðunni, ekki hafi verið skortur á fíkniefnum hér á landi. „Ef það er aukinn innflutningur þá mun það væntanlega þýða bara aukið aðgengi, lægra verð og allt þetta sem fylgir. Þetta auðvitað er bara mikil ógn, sérstaklega við okkar unga fólk, eða fólk á miðjum aldri og yngra, þessi örvandi vímuefni til dæmis sem er verið að ræða um og svo ópíóðarnir sömuleiðis.“
Meira fylgir en efnin
Heilt yfir hafi dregið úr neyslu ungs fólks á Íslandi á vímuefnum undanfarin tuttugu ár. Ýmislegt bendi til þess að það sé að breytast núna og segir Valgerður það ekki góða tilfinningu.
„Það er eins og upplýsingar um þetta unga fólk, þó þetta séu fá dæmi, þá sjáum við það aðeins hjá okkur að það eru að koma fleiri yngri aftur, sem er ekki góð þróun.“
Þá hafa nokkrir skjólstæðingar á Vogi lýst íblöndun í fíkniefnum sem þau hafi notað. Telji að eitthvað annað hafi verið í efnunum en bara það sem þar hafi átt að vera.
„Þannig það er auðvitað bara mjög varasamt og alveg full ástæða til eins og hefur verið gert í fyrri fréttum að vara fólk við, að vera á varðbergi. Það er aldrei að vita hvaða efni eru í vímuefnunum. Þetta er ólögleg framleiðsla og það eru til mjög hættuleg efni sem eru þannig að fólk getur ekki séð fyrir afleiðingarnar og eru að valda dauðsföllum annars staðar og það getur eins gert hérna, þannig það er full ástæða til þess að vera á varðbergi.“