Talsverð óvissa ríkti hvort leikur Íslendinga og Tyrkja í Þjóðadeildinni gæti farið fram í kvöld vegna ástands grassins á Laugardalsvelli. Hann er ekki upphitaður og því afar viðkvæmur fyrir næturfrosti eins og var í nótt.
Lokaákvörðunin um hvort leikurinn færi fram var í höndum dómaranna sem skoðuðu völlinn klukkan 14:00. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að Laugardalsvöllurinn væri leikhæfur. Ef völlurinn hefði ekki verið metinn leikhæfur hefði leiknum verið frestað til morguns.
Leikurinn í kvöld verður síðasti leikurinn á Laugardalsvelli áður blandað gras verður lagt á hann.
Undanfarna daga hefur verið dúkur yfir grasinu á Laugardalsvelli til að halda sem mestum hita á því. Dúkurinn var tekinn af skömmu fyrir leikinn gegn Wales á föstudaginn en settur aftur á eftir leik.
Ekki hefur verið æft á Laugardalsvelli undanfarna daga en fyrir leikinn gegn Wales æfði íslenska liðið á blönduðu grasi FH-inga í Kaplakrika. Walesverjar æfðu heima fyrir áður en þeir flugu til Íslands daginn fyrir leik.
Leikur Íslands og Tyrklands hefst klukkan 18:45 og verður sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport. Upphitun fyrir leikinn hefst hálftíma fyrr.