Liverpool vill fá Giorgi Mamardashvili, markvörð Valencia, til að leysa Alisson af hólmi. Mamardashvili var frábær í marki Georgíu á EM og hefur verið einn besti markvörður La Liga, spænsku úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, undnafarin tvö ár.
Liverpool hefur þegar boðið í þennan 23 ára gamla markmann sem félagið sér fyrir sér sem langtíma arftaka Alisson. Talið er næsta öruggt að Mamardashvili yrði lánaður frá félaginu frekar en að láta hann grotna á bekknum næstu tólf mánuðina.
Mamardashvili yrði fyrsti leikmaðurinn til að ganga í raðir Liverpool í sumar en félagið hefur einnig verið heldur rólegt þegar kemur að því að losa leikmenn. Nú virðist næsta öruggt að hinn 22 ára gamli Sepp van den Berg, miðvörður sem er ekki í plönum Arne Slot, sé á leið frá félaginu.

Þýskalandsmeistarar Bayer Leverkusen horfa hýru auga til Van den Berg. Að sama skapi er Brentford til í að sækja annan leikmann til Bítlaborgarinnar á innan við nokkrum vikum en félagið keypti Fábio Carvalho nýverið frá Liverpool.
Einnig er talið að hinn 27 ára gamli Joe Gomez sé á förum frá Liverpool en hann er kominn heldur neðarlega í goggunarröðina. Hann er að sjálfsögðu orðaður við Brentford sem og Aston Villa.

Sky Sports greindi frá.