Uppgjörið: Stjarnan - Valur 1-1 | Jafntefli í kaflaskiptum leik Þorsteinn Hjálmsson skrifar 9. ágúst 2024 17:16 Valur tapaði í kvöld sínum fyrstu stigum í Bestu deild kvenna síðan 24. maí. Gerði liðið 1-1 jafntefli við Stjörnuna á Samsungvellinum í Garðabæ í kaflaskiptum leik. Það tók aðeins 13. mínútur fyrir Valskonur að komast í forystu. Fanndís Friðriksdóttir átti þá frábæra rispu á hægri kantinum sem lauk með glæsilegri fyrirgjöf sem rataði beint á kollinn á Berglindi Björg Þorvaldsdóttur sem skallaði boltann í netið. Fyrir markið hafði verið algjör einstefna að marki Stjörnunnar en eftir það fóru heimakonur að sýna betri takta í uppspili og sínum sóknarleik. Þrátt fyrir það var lítið um afgerandi færi og leikurinn í miklu jafnvægi. Staðan 0-1 í hálfleik. Valur hóf síðari hálfleikinn líkt og þann fyrri, þ.e.a.s. með algjörri einstefnu að marki heimakvenna. Tókst þeim þó ekki að bæta í. Á 65. mínútu munaði minnstu að Stjarnan myndi jafna eftir að Hannah Sharts átti skalla í slá eftir hornspyrnu. Stuttu síðar komst Jessica Ayers ein í gegn og reyndi að vippa yfir Fanneyju Ingu Birkisdóttur í marki Vals sem varði vel. Á 86. mínútu jafnaði Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir leikinn með flottu skoti með vinstri fæti fyrir utan teig. Skaut hún í nærhornið og virtist landsliðsmarkvörðurinn, Fanney Inga Birkisdóttir, gera ráð fyrir skoti í fjær og var því tiltölulega sein að athafna sig í markinu og kom því engum vörnum við. Lokatölur 1-1. Atvik leiksins Sigurmarkið. Úlfa Dís átti flottan sprett af hægri kantinum og inn á völlinn þar sem hún lét loks vaða. Það má gera spurningarmerki við Fanneyju Ingu í markinu, enda um aðalmarkvörð íslenska landsliðsins að ræða. Skotið var alls ekki út við stöng, en Fanney Inga virtist ekki gera ráð fyrir skoti á þennan hluta marksins. Stjörnur og skúrkar Katie Cousins, miðjumaður Vals, var besti maður vallarins. Braut niður sóknir Stjörnunnar og stýrði öllu spili og takti í Valsliðinu. Ef fleiri leikmenn Vals hefðu gengið í sama takt og hún í dag hefði sennilega unnist sigur. Úlfa Dís var hvað sprækust í liði Stjörnunnar. Hún skoraði þetta mikilvæga jöfnunarmark og var hvað mest ógnandi í liði Stjörnunnar fram á við. Það er kannski hart að setja Fanneyju Ingu sem skúrk, en að mínu mati má gera þá kröfu að hún verji jöfnunarmark Stjörnunnar verandi einn besti, ef ekki besti markvörður Íslands. Dómarar Arnar Ingi Ingvarsson var með frábæra stjórn á leiknum og lét leikinn fljóta vel. Helsta atvikið sem reyndi á Arnar Inga og hans teymi var þegar Fanndís Friðriksdóttir féll eftir að hafa leikið boltanum fram hjá Erin Mcleod sem renndi sér í átt að Fanndísi. Virtist vera lítil sem engin snerting séð úr blaðamannastúkunni og því rétt að sleppa því að flauta víti. Stemning og umgjörð Sem fyrr þá er haldið vel utan um alla umgjörð á Samsungvellinum. Fínar veitingar og gott utanumhald í kringum leikinn. Stemningin á leiknum var þó heldur lágstemmd þetta föstudagskvöldið og fólk greinilega fyrst og fremst mætt til þess að njóta að horfa á góðan knattspyrnuleik. Pétur Pétursson: „Þetta gæti verið stigið sem að skiptir máli“ Pétur Pétursson, þjálfari ValsVísir/Vilhelm „Mér fannst þetta bara sanngjarnt, mér fannst alveg sanngjarnt að Stjarnan skyldi jafna þennan leik. Þær stóðu sig bara frábærlega í seinni hálfleik, mitt lið var ekkert sérstakt þá,“ sagði Pétur Pétursson, þjálfari Vals, eftir leik. „Við áttum kafla í þessum leik, sérstaklega í byrjun leiks og svo kafla í byrjun seinni hálfleiks. En mér fannst við ekki vera að spila okkar almennilega leik í dag og Stjarnan lokaði vel á okkur og gerði okkur erfitt fyrir. Þetta var ekki góður leikur hjá okkur heilt yfir.“ Aðspurður hvort þessi töpuðu stig væri högg fyrir Val þá var Pétur ekki sammála því. „Nei, nei, ég horfi á þetta þannig að þetta gæti verið stigið sem að skiptir máli.“ Það er stór vika fram undan hjá Val. „Það er bara bikarúrslitaleikur í næstu viku og svo eru tveir leikir í viðbót og við reynum bara að halda áfram okkar standard eins og við viljum hafa hann,“ sagði Pétur að lokum. Besta deild kvenna Stjarnan Valur Íslenski boltinn Fótbolti
Valur tapaði í kvöld sínum fyrstu stigum í Bestu deild kvenna síðan 24. maí. Gerði liðið 1-1 jafntefli við Stjörnuna á Samsungvellinum í Garðabæ í kaflaskiptum leik. Það tók aðeins 13. mínútur fyrir Valskonur að komast í forystu. Fanndís Friðriksdóttir átti þá frábæra rispu á hægri kantinum sem lauk með glæsilegri fyrirgjöf sem rataði beint á kollinn á Berglindi Björg Þorvaldsdóttur sem skallaði boltann í netið. Fyrir markið hafði verið algjör einstefna að marki Stjörnunnar en eftir það fóru heimakonur að sýna betri takta í uppspili og sínum sóknarleik. Þrátt fyrir það var lítið um afgerandi færi og leikurinn í miklu jafnvægi. Staðan 0-1 í hálfleik. Valur hóf síðari hálfleikinn líkt og þann fyrri, þ.e.a.s. með algjörri einstefnu að marki heimakvenna. Tókst þeim þó ekki að bæta í. Á 65. mínútu munaði minnstu að Stjarnan myndi jafna eftir að Hannah Sharts átti skalla í slá eftir hornspyrnu. Stuttu síðar komst Jessica Ayers ein í gegn og reyndi að vippa yfir Fanneyju Ingu Birkisdóttur í marki Vals sem varði vel. Á 86. mínútu jafnaði Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir leikinn með flottu skoti með vinstri fæti fyrir utan teig. Skaut hún í nærhornið og virtist landsliðsmarkvörðurinn, Fanney Inga Birkisdóttir, gera ráð fyrir skoti í fjær og var því tiltölulega sein að athafna sig í markinu og kom því engum vörnum við. Lokatölur 1-1. Atvik leiksins Sigurmarkið. Úlfa Dís átti flottan sprett af hægri kantinum og inn á völlinn þar sem hún lét loks vaða. Það má gera spurningarmerki við Fanneyju Ingu í markinu, enda um aðalmarkvörð íslenska landsliðsins að ræða. Skotið var alls ekki út við stöng, en Fanney Inga virtist ekki gera ráð fyrir skoti á þennan hluta marksins. Stjörnur og skúrkar Katie Cousins, miðjumaður Vals, var besti maður vallarins. Braut niður sóknir Stjörnunnar og stýrði öllu spili og takti í Valsliðinu. Ef fleiri leikmenn Vals hefðu gengið í sama takt og hún í dag hefði sennilega unnist sigur. Úlfa Dís var hvað sprækust í liði Stjörnunnar. Hún skoraði þetta mikilvæga jöfnunarmark og var hvað mest ógnandi í liði Stjörnunnar fram á við. Það er kannski hart að setja Fanneyju Ingu sem skúrk, en að mínu mati má gera þá kröfu að hún verji jöfnunarmark Stjörnunnar verandi einn besti, ef ekki besti markvörður Íslands. Dómarar Arnar Ingi Ingvarsson var með frábæra stjórn á leiknum og lét leikinn fljóta vel. Helsta atvikið sem reyndi á Arnar Inga og hans teymi var þegar Fanndís Friðriksdóttir féll eftir að hafa leikið boltanum fram hjá Erin Mcleod sem renndi sér í átt að Fanndísi. Virtist vera lítil sem engin snerting séð úr blaðamannastúkunni og því rétt að sleppa því að flauta víti. Stemning og umgjörð Sem fyrr þá er haldið vel utan um alla umgjörð á Samsungvellinum. Fínar veitingar og gott utanumhald í kringum leikinn. Stemningin á leiknum var þó heldur lágstemmd þetta föstudagskvöldið og fólk greinilega fyrst og fremst mætt til þess að njóta að horfa á góðan knattspyrnuleik. Pétur Pétursson: „Þetta gæti verið stigið sem að skiptir máli“ Pétur Pétursson, þjálfari ValsVísir/Vilhelm „Mér fannst þetta bara sanngjarnt, mér fannst alveg sanngjarnt að Stjarnan skyldi jafna þennan leik. Þær stóðu sig bara frábærlega í seinni hálfleik, mitt lið var ekkert sérstakt þá,“ sagði Pétur Pétursson, þjálfari Vals, eftir leik. „Við áttum kafla í þessum leik, sérstaklega í byrjun leiks og svo kafla í byrjun seinni hálfleiks. En mér fannst við ekki vera að spila okkar almennilega leik í dag og Stjarnan lokaði vel á okkur og gerði okkur erfitt fyrir. Þetta var ekki góður leikur hjá okkur heilt yfir.“ Aðspurður hvort þessi töpuðu stig væri högg fyrir Val þá var Pétur ekki sammála því. „Nei, nei, ég horfi á þetta þannig að þetta gæti verið stigið sem að skiptir máli.“ Það er stór vika fram undan hjá Val. „Það er bara bikarúrslitaleikur í næstu viku og svo eru tveir leikir í viðbót og við reynum bara að halda áfram okkar standard eins og við viljum hafa hann,“ sagði Pétur að lokum.
Uppgjörið og viðtöl: Stjarnan - Fylkir 1-2 | Fylkir strengdi sterkari líflínu með sigri í Garðabænum