Erlent

Að minnsta kosti 25 sagðir hafa látist í á­rás á tjald­búðir

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Gert að sárum drengs á spítala í Khan Younis. Alls eru 60 sagðir hafa látist í árásum Ísrael á Gasa í gær og tugir særst.
Gert að sárum drengs á spítala í Khan Younis. Alls eru 60 sagðir hafa látist í árásum Ísrael á Gasa í gær og tugir særst. AP/Jehad Alshrafi

Að minnsta kosti 25 léstust í árásum Ísraelshers á þorpið Abassan austur af Khan Younis í gær. Líkin voru talin af blaðamanni Associated Press en samkvæmt yfirvöldum voru sjö konur og börn meðal látnu.

Fólkið sem lést hafðist við í tjaldbúðum við skóla en samkvæmt Ísraelsher var um að ræða hnitmiðaða árás með herþotu á hryðjuverkamann sem tók þátt í árásum Hamas á byggðir í Ísrael 7. október síðastliðinn.

Talsmenn hersins segja rannsókn hafna á fregnum þess efnis að borgara hafi látið lífið.

Samkvæmt heimildarmönnum BBC voru um 3.000 manns á svæðinu þegar árásin átti sér stað og þá var ekki gefin út viðvörun vegna hennar. Ísraelsmenn hafa hins vegar hvatt fólk til að yfirgefa stór svæði í suðurhluta Gasa vegna yfirvofandi aðgerða.

Íbúar annars staðar á svæðinu hafa greint frá auknum þunga í árásum Ísraelsmanna í þessari viku, meðal annars í miðri Gasa borg. Þar er herinn sagður hafa gert árásir með þyrlum og þá sé barist á jörðu niðri.

Ísraelsher sótti á dögunum inn í hverfið Shuja'iya, þar sem bardagamenn Hamas og Islamic Jihad eru sagðir hafa náð aftur vopnum sínum. Talsmenn Rauða hálfmánans segja að samtökunum hafi borist fjöldi hjálparbeiðna í borginni en hjálparstarf sé ómögulegt vegna yfirstandandi árása.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×