Íslenski boltinn

Óli Valur um markið: „Var eigin­lega ekki að hugsa neitt“

Ólafur Þór Jónsson skrifar
Óli Valur skoraði ótrúlegt mark í kvöld.
Óli Valur skoraði ótrúlegt mark í kvöld. Vísir/Anton Brink

Stjarnan vann góðan 4-2 sigur á FH á Samsung vellinum í kvöld. Leikurinn var var í nokkru jafnvægi framan af endaði á algjörri flugelda sýningu þar sem mörkunum var raðað inn.

Óli Valur skoraði annað mark Stjörnunnar sem var eiginlegt sigurmark þegar lítið leit út fyrir að annað liðið næði að stela sigrinum í stöðunni 1-1. Markið var einkar glæsilegt og algjört einstaklingsframtak Óla. Hann lýsti markinu vel.

„Ég vinn bara boltann neðarlega á vellinum og fæ bara flugbrautina. Síðan fer ég bara einn á einn á Dusan og set hann í fjær.“ sagði Óli Valur og bætti við.

„Í augnablikinu var ég bara að keyra á hann. Var eigilega ekki að pæla neitt, viðurkenni það. Himmi (Hilmar Árni) var eigilega alveg brjálaður að ég gaf hann ekki á hann í 45 gráðurnar.“

Stjarnan var heilt yfir betra en FH komst yfir í fyrri hálfleik. Óli viðurkenndi að mark FH hafi verið gegn gangi leiksins.

„Þeir voru aðeins yfir í byrjun en mér leið samt vel allan tímann. Við vorum klárlega með yfirhöndina þrátt fyrir að lenda undir í leiknum. Vorum mjög sterkir í dag og það skilaði vel.“ sagði Óli Valur og bætti við um frammistöðu liðsins.

„Okkur leið bara það vel. Töluðum um það í hálfleik að við ættum að halda áfram að gera það sama, við vorum meira með boltann og að koma okkur í stöður til að skapa færi. Vorum að vinna boltann ofarlega og ná að keyra á þá. Var í raun tímaspursmál hvenær markið myndi detta.“

Stjarnan tapaði síðustu tveimur leikjum í deild illa og þurftu því á sigri að halda til að komast á sigurbraut. Hvaða þýðingu hefur þetta? „Klárlega mjög góða. Manni líður vel þegar maður vinnur og þá byrjar þetta vonandi að rúlla.“

Að lokum spyrði blaðamaður Óla Val um hvað tæki við hjá Stjörnunni. „Ég bara get ekki sagt þér það“ svaraði Óli Valur í algjörri núvitund.

Stjarnan mætir liði HK í næstu umferð næstkomandi laugardag og því stutt á milli stríða hjá Garðbæingum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×