„Þetta snýst um tilkynningu um þjófnað um borð í Polar Nanoq,“ segir Heilmann í samtali við Sermitsiaq, sem er stærsti fjölmiðill Grænlands.
Málið hafi ekkert með kynferðisbrot að gera
Það var Ríkisútvarpið sem greindi frá því að skipverji á Polar Nanoq hafi verið handtekinn vegna gruns um kynferðisbrot.
„Samkvæmt heimildum fréttastofu er maðurinn grunaður um að hafa farið með þolandann, konu, um borð í skipið í nótt og brotið á henni.“
Aðrir miðlar fengu þetta síðan staðfest frá lögreglu.
Frans Heilmann segir hins vegar nákvæmlega ekkert hæft í þessu; frásagnir íslenskra miðla af því sem þarna átti sér stað sé út í hött. Þetta snúist um tilkynningu um þjófnað um borð.
Þegar Vísir falaðist eftir samtali við Frans Heilmann sagðist hann að ráði lögmanna sinna ekki geta tjáð sig meðan frekari rannsókn á þeirra vegum hefur farið fram.
Ástæðulaust að valda ótta heima fyrir
Í Sermitsiaq er hins vegar vitnað í Heilmann sem segir ekkert styðja þessa frásögn; að handtaka hafi farið fram vegna gruns um kynferðisbrot. Frystitogarinn fór frá Íslandi í gær og eru allir í áhöfninni um borð. Engin grunur er uppi um neitt misjafnt af þeirra hálfu. Heilmann segist ekki vita hvernig sagan bjagaðist með þessum hætti en útgerðarfélagið sé nú að athuga hjá íslensku lögreglunni hvernig upplýsingagjöf var háttað.
Lögreglan sé að rannsaka málið sem grun um þjófnað. Öllum í áhöfninni líði vel og það sé miður að aðstandendum þeirra hafi, með þessum hætti, verið valdið áhyggjum og jafnvel ótta, útskýrir Frans Heilmann.
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónnn segist nú rétt í þessu ekki geta staðfest orð Frans Heilmann, ekki á þessu stigi máls. Málið sé í rannsókn.