Erlent

Óttast að um 2.000 hafi látist í aur­skriðum á föstu­dag

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þorpsbúar í Yambali leita í aurnum.
Þorpsbúar í Yambali leita í aurnum. AP/UNDP/Kafuri Yaro

Yfirvöld í Papúa Nýju-Gíneu telja að um 2.000 manns hafi orðið undir aurskriðum sem féllu í Enga-héraði í á föstudag. Að minnsta kosti 670 hafa fundist látnir.

Skriðurnar féllu á þorp og vinnubúðir á afskekktu svæði og eru aðstæður sagðar erfiðar. Aðalvegurinn að þorpinu er lokaður og þá er jarðvegurinn sagður óstöðugur, þar sem vatn flæðir undir og hætta á frekari skriðum.

Neysluvatn og tjöld bárust á svæðið á laugardag og matur fyrir 600 á sunnudag en enn hefur ekki gengið að koma þungavélum á staðinn og leitað með skóflum og göflum.

Svæðið er þéttbýlt en í nágrenninu er Porgera-gullnáman sem er starfrækt af fyrirtækinu Barrick Gold í Kanada og Zijin Mining í Kína. 

Embættismenn á vegum Sameinuðu þjóðanna eru sagðir fylgjast náið með stöðu mála og hafa lagt áherslu á að aðstoðar sé þörf nú þegar og til lengri tíma. Áætlað er að um það bil 250 heimili hafi verið rýmd vegna skriðuhættu og að um 1.250 séu á vergangi.

Þá greinir New York Times frá því að deilur ættbálka á svæðinu setji strik í reikninginn en átök brutust út á milli tvegjga hópa á laugardag. Nokkrir létust og kveikt var í tugum húsa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×