Erlent

Hryllingur í Rafah eftir hefndar­að­gerðir

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Skjáskot af myndbandi sem sýnir afleiðingar loftárásar Ísraels á Rafah.
Skjáskot af myndbandi sem sýnir afleiðingar loftárásar Ísraels á Rafah.

Að minnsta kosti 35 voru drepnir í árásum Ísraela á Rafah-borg í suður-Gaza. Loftárásirnar eru hefndaraðgerðir Ísraela eftir að Hamas-samtökin gerðu fyrstu eldflaugaárásir síðan í janúar á Tel Aviv í morgun. Myndbönd á samfélagsmiðlum sýna mikinn hrylling.

Í tilkynningu ísraleska hersins segir að loftárásin hafi beinst að „herstöð Hamas, þar sem háttsettir embættismenn voru“.

Í tilkynningu palestínska Rauða hálfmánans á Gasa kemur fram að búist sé við því að tala látinna hækki með kvöldinu. Viðbragðsaðilar leita enn að fólki á svæðinu sem árásirnar beindust að. 

Samtökin ítreka að Ísrael hafi skilgreint umrædd svæði sem „mannúðarsvæði“ og ekki á meðal þeirra svæða sem herinn skipaði að rýma skyldi fyrr í mánuðinum. 

Mustafa Barghouti, palestínskur stjórnmálamaður og læknir, lýsir miklum hryllingi á samélagsmiðlinum X.

„Ísraelski herinn stóð fyrir hópmorði í dag í norðvestur Rafah, sem á að vera öruggt svæði. Árásum var beint að tjöldum palestínskra flóttamanna sem brenna nú. Fleiri en 30 manns brunnu til dauða og fleiri eru slasaðir,“ skrifar Barghouti á X.

Í dag skutu Hamas-samtökin eldflaugum að Tel Aviv, höfuðborgar Ísrael. Heyra mátti loftvarnaflautur óma í Tel Aviv þegar eldflaugunum var skotið af stað, en Ísraelsher segir þær hafa verið átta talsins og að „nokkur fjöldi“ þeirra hafi verið skotinn niður.

Hamas samtökin gáfu frá sér yfirlýsingu á Telegram í dag þar sem segir að eldflaugunum hafi verið skotið sem viðbragð við „árásum Zíonista á óbreytta borgara“. 

Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels kallaði saman herráð landsins í dag til að semja um lausn gísla í haldi Hamas. Fulltrúar Hamas segja Ísraelsmenn ekki hafa opnað aftur á viðræðurnar en krafa Hamasliða er sú að komið verði á varanlegu vopnahléi á Gaza.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×