Íslenski boltinn

KA-menn kölluðu eftir hjálp sál­fræðings

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
KA -menn sóttu sér hjálp frá íþróttasálfræðingi eftir erfiða byrjun.
KA -menn sóttu sér hjálp frá íþróttasálfræðingi eftir erfiða byrjun. Vísir/Diego

KA-menn hafa unnið tvo síðustu leiki sína í fótboltanum eftir erfiða byrjun á sumrinu. KA-menn sögðu frá því á miðlum sínum í dag að þeir fengu góðan liðstyrk á dögunum. Það er þó ekki leikmaður.

Afrekssálfræðingurinn Thomas Danielsen hefur snúið aftur til KA og vinnur þessa dagana með leikmönnum meistaraflokks karla í fótbolta.

„Thomas var áður í þjálfarateymi liðsins sumarið 2022 og er gríðarlega ánægjulegt að við fáum aftur að njóta krafta þessa mikla fagmanns og bjóðum við Thomas hér aftur hjartanlega velkominn norður!,“ segir í frétt á miðlum KA.

Sumarið 2022 þá náðu KA-menn öðru sæti í deildinni og tryggðu sér sæti í Evrópukeppni. Þeir komust líka í undanúrslit bikarsins og þetta er eitt af bestu tímabilum í sögu félagsins.

KA fagnaði um helgina fyrsta sigri sínum í Bestu deildinni í sumar og hafði komist áfram í átta liða úrslit bikarsins í leiknum á undan.

Uppskera KA-manna í fyrstu sex umferðunum voru aðeins tvö stig eftir jafntefli við HK og KR. Liðið meira en tvöfaldaði því stigafjöldann sinn með 4-2 sigri á Fylkismönnum í sjöundu umferð.

Næsti leikur KA er á móti Stjörnunni í Garðabænum á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×