Erlent

Munu þurfa að af­plána í Kósovó

Atli Ísleifsson skrifar
Mette Frederiksen er forsætisráðherra Danmerkur.
Mette Frederiksen er forsætisráðherra Danmerkur. Vísir/Arnar

Erlendir glæpamenn sem hafa verið dæmdir til fangelsisvistar og brottvísunar í Danmörku geta nú séð fram á að afplána dóminn í Kósovó. Þetta varð ljóst eftir að þjóðþing Kósovó samþykkti þar til gerðan samning við dönsk stjórnvöld í dag.

Samningurinn felur í sér að dönsk stjórnvöld taki á leigu þrjú hundruð fangelsispláss í Kósovó.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef danska dómsmálaráðuneytisins. Fangelsisplássin eru í Gjilan-fangelsinu í suðausturhluta Kósovó en framundan eru nú framkvæmdir í fangelsinu til að plássin standist danska fangelsisstaðla.

Danski dómsmálaráðherrann Peter Hummelgaard segir að með samningnum sé ætlunin að senda erlendum glæpamönnum skilaboð um að „framtíð þeirra sé ekki í Danmörku“. Þá sé með þessu sömuleiðis verið að losa um pláss í yfirfullum fangelsum í Danmörku.

Reiknað er með að fyrstu fangarnir komu til með að geta hafið afplánun í Gjilan-fangelsinu eftir 21 til 26 mánuði.

Kostnaður danskra stjórnvalda vegna samningsins nemur 1,5 milljörðum danskra króna yfir tíu ára tímabil. Upphæðin nemur um þrjátíu milljarða íslenskra króna.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×