Innlent

Niður­skurður skerðir þjónustu og ógnar öryggi

Samúel Karl Ólason skrifar
Fjölnir Sæmundsson, formaður stjórnar Landssambands lögreglumanna.
Fjölnir Sæmundsson, formaður stjórnar Landssambands lögreglumanna. Vísir/Arnar

Formaður Landssambands lögreglumanna segir frekar þörf á auknum fjárveitingum en niðurskurði. Niðurskurður muni koma niður á öryggi borgara þar sem forsvarsmenn lögreglunnar hafi þegar gripið til sparnaðar víða um land.

Ríkislögreglustjóri og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gagnrýna harðlega fyrirhugaðan niðurskurð til löggæslumála í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og gera kröfu um að fjárveitingar verði frekar auknar til að mæta fleiri og stærri verkefnum.

Stjórn Landssambands lögreglumanna sendi í dag út ályktun þar sem hinn væntanlegi niðurskurður var harðlega gagnrýndur.

Sjá einnig: Draumórar að löggæsla muni ekki skerðast

Fjölnir Sæmundsson, formaður stjórnarinnar, mætti í Kvöldfréttir Stöðvar 2, þar sem hann sagði meðal annars að afleiðingar þessa ætlaða tveggja prósenta niðurskurðar yrði skert þjónusta hjá lögreglunni um land allt.

„Við erum í mörg ár búin að tala um að það þurfi að fjölga lögreglumönnum. Það er verið að fjölga í lögregluskólanum, þannig að okkur finnst þetta kolröng skilaboð,“ sagði Fjölnir. Hann sagði stjórnina mjög hissa á þessu og þetta geti ekki annað en skert þjónustuna og ógnað öryggi borgara.

Hann sagði lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu telja að um tvö hundruð lögreglumenn vanti þar og að lögreglumenn vanti um allt land.

„Lögreglan er búin að vera að spara um allt land og mjög víða hafa verið lagðar niður næturvaktir á landinu. Þú getur í rauninni keyrt frá Reykjavík alla leið á Akureyri um miðja nótt og það er ekki nokkur lögreglumaður vakandi, nema þú takir krókinn á Ísafjörð,“ sagði Fjölnir.

Sjá einnig: Fleiri löggur á leiðinni

Hann sagði stuðning skorta og benti á að margir vissu ef til vill ekki að lögreglumenn væru oftar en ekki í mörgum hlutverkum.

„Ég er til dæmis rannsóknarlögreglumaður og margir rannsóknarlögreglumenn eru líka viðstaddir mótmæli og skipta þá um búning, þannig að þeir eru í tveimur hlutverkum.“

Marga þarf til að leysa sakamál

Fjölnir sagði að þó tæknin væri sífellt að aukast væri löggæsla mjög mannaflafrek. Það þyrfti margar manneskjur til að leysa eitt sakamál.

„Eitt heimilisofbeldismál getur tekið marga klukkutíma og á meðan er lögreglumaðurinn ekki annarsstaðar. Þannig að það þarf mikinn fjölda af lögreglumönnum bara til að halda öryggi og geta fylgst með afbrotum.“

Niðurskurðurinn mun að mati Fjölnis og stjórnarinnar leiða til meira álags á lögreglumenn og meiri vinnu. Það sé þó óhjákvæmilegt að niðurskurðurinn muni koma niður á störfum lögreglunnar. Laun séu lang mesti kostnaður hjá lögreglunni.

Fjölnir segir frekar þörf á auknu fjármagni en niðurskurði hjá lögreglunni.

„Við viljum aukið fjármagn og við viljum að þessir áttatíu sem eru að mennta sig sem lögreglumenn geti fengið vinnu þegar þeir útskrifast. Með þessum niðurskurði verða bara ekki stöður fyrir þá sem verið er að eyða peningum í að mennta.“

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, sagði frá því í kvöld að hún hefði í vikunni óskað eftir því að fulltrúar lögreglunnar mættu á fund fjárlaganefndar. Hún sagðist vilja ræða áhrif væntanlegs niðurskurðar á löggæslu í landinu.

„Heilbrigðisþjónusta er undanþegin aðhaldskröfu. Það þykir auðvitað ekki boðlegt að höggva í algjöra grunnþjónustu,“ skrifaði Þorbjörg á Facebook. „En hvað er löggæsla annað en algjör grunnþjónusta? Hvað er löggæsla annað en grunninnviðir samfélags?“

Hún segist taka heilshugar undir umsagnir lögreglunnar og undir orð Fjölnis í fréttum Stöðvar 2.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×