Erlent

Sakaði Trump um að reyna að spilla kosningunum 2016

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump á leið í dómsal á Manhattan í New York í morgun.
Trump á leið í dómsal á Manhattan í New York í morgun. AP/Yuki Iwamura

Saksóknari í New York fullyrti að Donald Trump hefði lagt á ráðin um glæpsamlega tilrauna til þess að spilla forsetakosningunum árið 2016 með ólöglegri greiðslu til klámstjörnu þegar málflutningur á sakamáli á hendur fyrrverandi forsetanum hófst í dag.

Réttarhöldin yfir Trump eru söguleg þar sem þetta er í fyrsta skipti sem fyrrverandi Bandaríkjaforseti er sakborningur í sakamáli. 

Trump er ákærður fyrir að falsa skjöl til þess að hylma yfir greiðslur sem hann lét fyrirtæki sitt inna af hendi til að kaupa þögn Stephanie Clifford, klámstjörnu sem hélt því fram að hún hefði átt í kynferðislegu sambandi við Trump fyrir kosningarnar 2016. Michael Cohen, þáverandi lögmaður Trump, er sagður hafa greitt konunni en fyrirtækið síðan endurgreitt honum kostnaðinn.

Matthew Colangelo, einn saksóknaranna í málinu, sagði að endurgreiðslur fyrirtækis Trump til Cohen hefðu verið ranglega skráðar sem lögfræðikostnaður í bókhaldi.

„Sakborningurinn falsaði þessi viðskiptaskjöl vegna þess að hann vildi hylma yfir eigin glæpi og annarra,“ sagði Colangelo í opnunarræðu sinni.

Trump í dómsal á föstudag þegar lokað var við að skipa kviðdóm og varamenn í málinu gegn honum.AP/Curtis Means

Fyrsta vitni ákæruvaldsins er David Pecker, þáverandi útgefandi slúðurritsins National Enquirer. Saksóknarar halda því fram að Pecker og Trump hafi gert með sér samkomulag skömmu eftir að sá síðarnefndi tilkynnti um framboð sitt til forseta um að blaðið hjálpaði honum að þagga niður möguleg hneykslismál.

Þannig greiddi Trump ekki aðeins Clifford, betur þekkt sem Stormy Daniels, fyrir að þegja heldur einnig Karen McDougal, fyrrverandi Playboy-fyrirsætu, sem hélt því fram að þau Trump hafi átt í árslöngu sambandi við Trump eftir að hann giftist Melaniu, eiginkonu sinni.

Mál saksóknarans á Manhattan byggir á því að Trump hefði greitt konunum til þess að koma í veg fyrir álitshnekki í kosningabaráttunni, ekki síst í kjölfar birtingar gamallar upptöku þar sem hann heyrðist tala fjálglega um að hann gæti ráðist á konur kynferðislega án afleiðinga í krafti frægðar sinnar. Greiðslurnar hafi þannig tengst framboði hans og átt að vera gefnar upp sem slíkar.


Tengdar fréttir

Trump dottaði þegar fyrsta saka­málið var tekið fyrir

Ekki tókst að velja neina kviðdómendur á fyrsta degi réttarhalda í sakamáli á hendur Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, í New York í gær. Trump sást dotta á meðan hæfi mögulegra kviðdómenda var metið.

Fyrsta saka­málið gegn Banda­ríkja­for­seta fyrir dóm

Söguleg réttarhöld yfir Donald Trump vegna ólöglegra greiðslna til klámstjörnu hefjast með vali á kviðdómendum í New York í dag. Þetta er er í fyrsta skipti sem fyrrverandi Bandaríkjaforseti er sakborningur í sakamáli.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×