Enski boltinn

Segir að Haaland hafi beðið um skiptingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Haaland hefur spilað fjóra leiki með Manchester City á móti Real Madrid í Meistaradeildinni og ekki náð að skora eitt mark í þeim.
Erling Haaland hefur spilað fjóra leiki með Manchester City á móti Real Madrid í Meistaradeildinni og ekki náð að skora eitt mark í þeim. AP/Mike Egerton

Margir voru hissa að sjá markahæsta leikmann Manchester City tekinn af velli eftir venjulegan leikmtíma.

Dramur Manchester City um að vinna þrennuna annað tímabilið í röð varð að engu í gærkvöldi þegar Real Madrid sló ensku meistarana út úr Meistaradeildinni.

Real Madrid vann leikinn í vítakeppni en hann fór fram á heimavelli Manchester City. Fyrri leiknum lauk með 3-3 jafntefli á Spáni en liðin gerðu 1-1 jafntefli í gær.

Real varðist vel í leiknum og City tókst ekki að ná inn markinu sem hefði komið liðinu áfram í undanúrslitin. Bernardo Silva var skúrkurinn í vítakeppni en hann tók þar skelfilegt víti.

Athygli vakti þegar norski framherjinn Erling Braut Haaland var tekinn af velli áður en framlengingin byrjaði. Knattspyrnustjórinn Pep Guardiola var spurður út í það eftir leikinn.

„Ég er ekki hrifinn af því að gera margar skiptingar en Erling Braut Haaland, Manuel Akanji og Kevin De Bruyne báðu mig allir um skiptingu. Þeir gátu ekki haldið áfram,“ sagði Pep Guardiola samkvæmt Sam Lee, blaðamanni The Athletic.

Haaland fékk nokkur færi í leiknum en sást ekki mikið. Hann hefur nú spilað fjórum sinnum með City á móti Real Madrid í Meistaradeildinni á síðustu tveimur tímabilum og hefur ekki skorað eitt einasta mark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×