Íslenski boltinn

Óskar Örn jafnaði met Gunn­leifs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óskar Örn Hauksson hefur spilað deildarleikina fyrir fimm félög eða Njarðvík, Grindavík, KR, Stjörnuna og nú síðast Víking.
Óskar Örn Hauksson hefur spilað deildarleikina fyrir fimm félög eða Njarðvík, Grindavík, KR, Stjörnuna og nú síðast Víking. Vísir/Hulda Margrét

Óskar Örn Hauksson spilaði með Víkingi í Bestu deild karla í fótbolta í gærkvöldi en þetta var fyrsti deildarleikur hans fyrir Fossvogsliðið.

Óskar bætti um leið við leikjamet sitt í efstu deild en þetta var hans 374. leikur í efstu deild á Íslandi. Óskar eignaðist hins vegar annað met með því að spila leikinn í gær.

Þetta var hans 439. deildarleikur á Íslandi og hann jafnaði með því met markvarðarins Gunnleifs Gunnleifssonar. Víðir Sigurðsson heldur utan um listann í bók sinni Íslensk knattspyrna.

Gunnleifur var búinn að eiga metið einn síðan hann tók það af Gunnari Inga Valgeirssyni í júní 2019. Mark Duffield átti metið mjög lengi en hann spilaði 400 deildarleiki á Íslandi. Gunnar Ingi bætti metið upp í 424 leiki og Gunnleifur er með 439 leiki. Hjörtur Júlíus Hjartarson er einnig í fjögur hundruð leikja klúbbnum með 408 leiki.

Óskar spilaði sextán leiki með Grindavík í Lengjudeildinni í fyrra en meiðsli komu í veg fyrir að hann spilaði alla leikina og bætti met Gunnleifs.

Óskar réði sig sem styrktarþjálfari hjá Víkingi fyrir þetta tímabil en skipti síðan yfir í Víking og spilaði með liðinu á undirbúningstímabilinu.

Óskar Örn er með 374 leiki í efstu deild (88 mörk), 31 leik í B-deildinni (14 mörk), 17 leiki í C-deild (2 mörk) og 17 leiki (7 mörk) í D-deild.

Hann hefur því skorað 111 mörk í þessum 439 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×