Íslenski boltinn

„Gott að verja frá svona góðum fótboltamanni“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ólafur Kristófer í leik Fylkis gegn KR.
Ólafur Kristófer í leik Fylkis gegn KR. Vísir/Anton Brink

Ólafur Kristófer Helgason átti flottan leik í marki Fylkis gegn Val í dag. Leiknum lauk með markalausu jafntefli og þurfti Ólafur í nokkur skipti að láta til sín taka í markinu.

„Ég held við séum mjög sáttir með það út frá því hvernig leikurinn spilaðist. Við lágum svolítið mikið niðri í seinni hálfleik sérstaklega og þeir eru með mjög gott lið og góða leikmenn. Ég held við séum sáttir eftir leikinn en fórum náttúrulega inn til að vinna,“ sagði Ólafur Kristófer eftir leik en Valsmenn lágu vel á Fylkismönnum undir lokin.

Eins og áður segir átti Ólafur Kristófer flottan leik í markinu og hann var ánægður með sína frammistöðu.

„Ég er mjög sáttur. Ég er alltaf sáttur þegar ég næ að halda hreinu og ég náði að stoppa nokkrar góðar sóknir hjá þeim.“

Hann viðurkenndi að það kitlaði egóið að verja frá Gylfa Þór Sigurðssyni en Gylfi Þór átti tvö fín færi í fyrri hálfleiknum þar sem Ólafur sá við honum.

„Klárlega. Það er alltaf gott að verja skot frá svona góðum fótboltamanni sem hefur gert mikið og kann mikið.“

Fylkir er með eitt stig eftir tvo heimaleiki í Bestu deildinni gegn Reykjavíkurstórveldunum KR og Val.

„Við hefðum viljað fá meira úr KR-leiknum. Mér fannst við spila mjög vel þar og við vorum mjög ósáttir með þann leik. Það gekk ágætlega í dag og við erum sáttir með stigið að lokum.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


×