Enski boltinn

Segir að Bompa­stor leysi Hayes af hólmi hjá Chelsea

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Undir stjórn Sonia Bompastor hefur Lyon ekki tapað deildarleik það sem af er leiktíð.
Undir stjórn Sonia Bompastor hefur Lyon ekki tapað deildarleik það sem af er leiktíð. Chris Ricco/Getty Images

Það virðist sem Chelsea sé búið að finna arftaka Emmu Hayes. Sú heitir Sonia Bompastor og er í dag þjálfari franska stórliðsins Lyon.

Emma Hayes hefur starfað fyrir Chelsea undanfarin áratug en fyrr á yfirstandandi leiktíð var greint frá því að hún myndi taka við bandaríska kvennalandsliðinu að tímabilinu loknu. Síðan hefur Chelsea leitað hátt og lágt að nýjum þjálfara.

Snemma í þjálfaraleitinni kom fram að félagið vildi helst ráða kvenkyns þjálfara í starfið og var Elísabet Gunnarsdóttir meðal annars orðuð við starfið.

Nú hefur Tom Garry, blaðamaður á The Telegraph í Bretlandi, greint frá því að Bompastor verði arftaki Hayes. Mun aðstoðarþjálfarinn Camille Abily sömuleiðis færa sig um set frá Frakklandi til Englands.

Hin 43 ára gamla Bompastor hefur stýrt Lyon frá 2021. Til þessa hefur hún unnið frönsku deildina tvisvar, franska bikarinn einu sinni, Ofurbikar Frakklands tvívegis og Meistaradeild Evrópu einu sinni. Þá gæti hún bætt við titlum í vor.

Áður en hún tók við starfi sem aðalþjálfari Lyon starfaði hún fyrir akademíu félagsins. Sem leikmaður lék hún lengst af fyrir Lyon og lék alls 156 A-landsleiki fyrir Frakkland.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×