Erlent

Finnar fram­lengja lokun landa­mæranna ó­tíma­bundið

Kjartan Kjartansson skrifar
Finnskir landamæraverðir fylgja hælisleitendum við Vartius-landamærastöðina við Kuhmo í nóvember. Landamærunum að Rússland var lokað eftir að fjöldi hælisleitenda reyndi skyndilega að komast yfir þau á skömmum tíma.
Finnskir landamæraverðir fylgja hælisleitendum við Vartius-landamærastöðina við Kuhmo í nóvember. Landamærunum að Rússland var lokað eftir að fjöldi hælisleitenda reyndi skyndilega að komast yfir þau á skömmum tíma. Vísir/EPA

Ríkisstjórn Finnlands ákvað að halda landamærum landsins að Rússlandi áfram lokuðum ótímabundið í dag. Finnar saka rússnesk stjórnvöld um að senda hælisleitendur frá öðrum ríkjum að landamærunum til þess að baka þeim vandræði.

Landamæri Finnlands og Rússlands hafa verið lokuð frá því í desember. Ríkisstjórn Petteri Orpo forsætisráðherra skellti í lás eftir að hundruð flóttamanna frá Afríku og Asíu byrjuðu skyndilega að streyma að landamærunum frá Rússlandi í nóvember. Stjórnvöld í Helsinki sökuðu Rússa um að standa að flóttamannastrauminum til þess að hefna sín fyrir að Finnland gekk í Atlantshafsbandalagið í fyrra.

Lokunin hefur fram að þessu verið endurskoðuð og framlengd á tveggja mánaða fresti en að þessu sinni er hún ótímabundin, að sögn finnska ríkisútvarpsins YLE. Hún nær nú einnig til þriggja smábátahafna við landamærin til að koma í veg fyrir að hælisleitendur reyni að sigla yfir til Finnlands. Hafnirnar verða lokaðar skemmtibátum frá miðjum þessum mánuði.

Mari Rantanen, innanríkisráðherra Finnlands, segir engin merki um að staðan hafi breyst frá því í vetur. Með rísandi sól og batnandi veðri séu líkur á að flóttamannastraumurinn þyngist enn frekar. Hundruð og jafnvel þúsundir manna gætu reynt að fara yfir landamærin frá Rússlandi.

Hægristjórn Orpo hyggst einnig reyna að koma í gegn nýjum lögum sem gerði henni kleift að snúa hælisleitendum beint aftur til Rússlands ef umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd eru ekki taldar eiga rétt á sér. Gagnrýnisraddir eru uppi um að frumvarp þess efnis stríði gegn alþjóðlegum sáttmálum um landamæri ríkja.


Tengdar fréttir

Niinistö segir aukinn fjölda hælisleitenda hefndaraðgerð Rússa

Sauli Niinistö, forseti Finnlands, hefur heitið því að grípa til afdráttarlausra aðgerða vegna aukins fjölda hælisleitenda sem kemur til landsins frá Rússlandi. Segir hann um að ræða hefndaraðgerðir Rússa vegna samstarfs Finna og Bandaríkjamanna.

Finnar loka landamærastöðvum við Rússland

Finnsk yfirvöld hafa tilkynnt að þau muni loka öllum landamærastöðvum utan einnar við landamæri landsins að Rússlandi. Er um að ræða aðgerð til að stemma stigu við komu hælisleitenda.

Loka nú öllum landamærunum við Rússland

Ríkisstjórn Finnlands hefur tekið þá ákvörðun að loka öllum landamærastöðvum við landamæri Rússlands til 13. desember. Eingöngu vörur munu komast yfir landamærin á einum stað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×