Erlent

Ísraels­menn sagðir hafa drepið sjö starfs­menn hjálpara­sam­taka

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sjö starfsmenn World Central Kitchen eru sagðir hafa látist í árás Ísraelsmanna í gær.
Sjö starfsmenn World Central Kitchen eru sagðir hafa látist í árás Ísraelsmanna í gær. AP/Abdel Kareem Hana

Hjálparsamtökin World Central Kitchen segja sjö starfsmenn samtakanna hafa látist í árás Ísraelsmanna á Gasa. Fólkið er sagt hafa verið frá Ástralíu, Póllandi, Bretlandi og Palestínu. 

Einn sagður hafa verið með tvöfalt ríkisfang, í Bandaríkjunum og Kanada.

Að sögn framkvæmdastjórans Erin Gore var teymið á ferð á svæði þar sem átök áttu að vera yfirstaðin, í tveimur bifreiðum merktum samtökunum. Hópurinn var að ferja neyðargögn sem komu sjóleiðina til Gasa í vöruhús og höfðu átt samráð við Ísraelsher um ferðir sínar.

Gore segir ekki aðeins um að ræða árás á samtökin heldur árás á aðila sem unnið hafi að því að koma neyðaraðstoð til fólks á svæði þar sem verið sé að beita mat, eða öllu heldur matarskorti, sem vopni.

„Þetta er ófyrirgefanlegt,“ segir hún.

Ísraelsher segist hafa atvikið til rannsóknar og þá fylgist þjóðaröryggisráð Bandaríkjanna með málinu. 

Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafi Joe Biden Bandaríkjaforseta, mun ferðast til Sádi Arabíu í vikunni til að eiga viðræður við krónprinsinn Mohammed bin Salman um samskipti Sádi Arabíu og Ísrael. Margt verður til umræðu en engra stórra frétta er að vænta, ef marka má erlenda miðla.

Fulltrúar Bandaríkjanna og Ísrael ræddu yfirvofandi innrás síðarnefnda inn í Rafah á fundi í gær, sem sagður er hafa verið uppbyggilegur. Bandaríkjamenn hafa hvatt stjórnvöld í Ísrael til að falla frá fyrirætlunum sínum en segjast styðja það markmið að leggja bardagamenn Hamas í borginni að velli.

Þúsundir mótmæltu í Ísrael í nótt og kröfðust afsagnar Benjamin Netanyahu forsætisráðherra. Þetta er þriðja nóttin í röð sem mótmælendur sækja út á götur Jerúsalem og Tel Aviv í mótmælaskyni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×