Erlent

„Lifum á þýðinga­mestu tímum frá enda­lokum seinni heims­styrj­aldarinnar“

Eiður Þór Árnason skrifar
Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands á blaðamannafundi á fimmtudag eftir fund hans með Denys Shmyhal, forsætisráðherra Úkraínu.
Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands á blaðamannafundi á fimmtudag eftir fund hans með Denys Shmyhal, forsætisráðherra Úkraínu. EPA/Marcin Obara

Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands segir Evrópu vera á „fyrirstríðstímum“ og varar við því að Úkraína megi ekki lúta í lægra haldi fyrir Rússlandi. Heimsálfan eigi mikið undir og stríð ekki lengur draugar fortíðar.

Ummæli hans koma í kjölfar þess að Rússlandsher gerði umfangsmikla árás á raforkukerfi Úkraínu á fimmtudag. Vladimír Pútín, forseti Rússlands sagði í þessari viku að yfirvöld í Moskvu ætluðu ekki að sýna árásargirni í garð ríkja Atlantshafsbandalagsins (NATO). 

Hann bætti við að hugmyndir um að Rússar gerðu árás á Pólland, Eystrasaltsríkin eða Tékkland væru þvæla en öll eru ríkin hluti af NATO. Pútín sagði þó að ef kæmi til þess að Úkraína sendi F-16 herflugvélar frá flugvöllum í öðrum ríkjum myndu þau teljast „lögmæt skotmörk, sama hvar þau eru staðsett.“

Breska ríkisútvarpið greinir frá þessu en nærri hundrað flugskeyti og drónar voru notuð í nýlegri árás Rússa á Úkraínu sem olli rafmagnstruflunum á vissum svæðum. Um er að ræða aðra árásina í röð þar sem Rússlandsher beitir miklum fjölda vopna á sama tíma til að yfirbuga úkraínskar varnir.

Vólódómír Selenskí, forseti Úkraínu hefur varað við því að árásir á vatnsaflsvirkjanir í landinu gætu leitt til stórvægilegs umhverfisslyss. Breska ríkisútvarpið hefur eftir borgarstjóra Kharkív, næst stærstu borg Úkraínu að raforkukerfið liggi undir alvarlegum skemmdum og það geti tekið tvo mánuði að koma því í samt horf. Á meðan eigi iðnaður erfitt uppdráttar og smærri fyrirtæki notist við rafstöðvar.

Tusk, forsætisráðherra Póllands kallar eftir auknum og umsvifalausum hergagnaflutningi til Úkraínu og varar við því að framgangur stríðsins næstu tvö árin muni ráða öllu. „Við lifum á þýðingamestu tímum frá endalokum seinni heimsstyrjaldarinnar.“


Tengdar fréttir

Um 375 milljónir til úkraínska hersins

Íslensk stjórnvöld munu verja tveimur milljónum evra, um 300 milljónum króna, í að útvega skotfæri fyrir stórskotalið Úkraínu. Þá verður 75 milljónum króna varið í að koma til móts við þarfir kvenkyns úkraínskum hermönnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×