Erlent

Dómararnir virtust efast um rétt­mæti málsins gegn FDA

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Læknarnir sem standa að málsókninni mættu í sloppunum í dómsal.
Læknarnir sem standa að málsókninni mættu í sloppunum í dómsal. Getty/Anna Rose Layden

Dómarar við Hæstarétt Bandaríkjanna virðast hafa verulegar efasemdir um málflutning samtaka sem vilja að dómstóllinn felli úr gildi ákvarðanir Matvæla- og lyfjastofnunar Bandaríkjanna um að heimila notkun mifepristone.

Mifepristone er notað til að framkalla þungunarrof en Alliance for Hippocratic Medicine, sem vilja banna þungunarrof, segja lyfið ekki öruggt og að notkun þess gæti valdið læknum skaða.

Þess ber að geta að FDA hefur fylgst náið með notkun mifepristone og fjöldi rannsókna sýnt fram á að lyfið sé öruggt.

Málflutningur fór fram fyrir Hæstarétti í gær, þar sem ríkissaksóknarinn Elizabeth Prelogar sagði læknana sem nefndir eru í lögsókninni ekki geta sýnt fram á að ákvörðun FDA um að heimila notkun mifepristone til að framkalla þungunarrof hefði komið niður á þeim.

Ákvörðun þeim í hag yrði afar skaðleg fyrir alla lyfjaþróun og leyfisveitingar í Bandaríkjunum yfir höfuð og valda konum alvarlegum skaða.

Stuðningsmenn og andstæðingar þungunarrofs fjölmenntu fyrir framan Hæstarétt.Getty/Anna Rose Layden

Dómararnir virtust sammála málflutningi ríkisins og Amy Coney Barrett, sem skipuð var af Donald Trump, spurði meðal annars að því hvort læknarnir hefðu verið neyddir til að framkvæma þungunarrof gegn vilja sínum.

Dómararnir spurðu einnig að því hvort það væri ekki ójafnvægi á milli meints skaða nokkurra lækna og krafa þeirra, sem myndu hafa áhrif á milljónir manna sem hugsanlega hefðu gagn af notkun mifepristone.

Neil Gorsuch, sem einnig var skipaður í embætti af Donald Trump, spurði að því hvort að niðurstaða læknunum í hag opnaði ekki á að fámennur hópur umbreytti „lítilli lögsókn“ í stórmál gegn ákvörðunum FDA eða hvers konar aðgerðum yfirvalda.

Þá spurðu Elena Kagan og Ketanji Brown Jackson að því hvort læknarnir væru ekki nú þegar í vari, þar sem þeir hefðu rétt til þess að neita konum um þungunarrofsþjónustu á þeim grundvelli að það stríddi gegn siðferði þeirra eða trú.

Um það bil 63 prósent alls þungunarrofs í Bandaríkjunum árið 2023 var framkvæmt með notkun lyfja. Talið er að um fimm milljónir kvenna í Bandaríkjunum hafi notað mifepristone til að binda enda á meðgögnu.

Hér má finna umfjöllun BBC um málið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×