Erlent

Minnst 133 látnir og fjórir grunaðir hand­teknir

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Árásin var gerð í Crocus tónleikahöllinni í Moskvu.
Árásin var gerð í Crocus tónleikahöllinni í Moskvu. AP

Lögreglan í Rússlandi hefur handtekið ellefu í kjölfar skotárásarinnar sem gerð var í tónleikahöll í Moskvu í gærkvöldi. Fjórir þeirra handteknu eru grunaðir um aðild að árásinni, en í henni létust að minnsta kosti 133. 

Rússneskir miðlar greina frá, í frétt Reuters kemur fram að af þeim ellefu sem handteknir voru væru fjórir hryðjuverkamenn og að leyniþjónusta Rússlands (FSB) ynni að því að ná haldi á fleirum sem grunaðir eru um að hafa framið árásina. 

Samkvæmt upplýsingum frá rússneskum yfirvöldum er fjöldi látinna kominn upp í 93. Þá eru yfir hundrað manns særðir. 

Fram kemur að árásarmennirnir hafi flúið af vettvangi í Renault bíl sem lögregla fann síðar í Bryansk héraði, um 340 kílómetrum suðvestan Moskvu. Tveir hafi verði handteknir og tveir reynt að flýja inn í skóg, en komust ekki undan. 

Þá segir að í bílnum hafi fundist skammbyssa, skothylki fyrir hríðskotariffil og vegabréf frá Tajikistan. 

Íslamska ríkið lýsti í gærkvöldi yfir ábyrgð á árásinni, sem er sú mannskæðasta í landinu frá árinu 2004, þegar byssumenn réðust inn í barnaskóla í Beslan og skutu 331 til bana. Skotárásin var gerð í Crocus tónleikahöllinni í Moskvu, en þar átti rokkhljómsveit frá tímum Sovíetríkjanna að spila um kvöldið.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×