Erlent

Börn drepa dýr með teygju­byssum og deila mynd­efni á What­sApp

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mynd af teygjubyssu og dauðum íkorna, sem deilt var í einum af hópunum.
Mynd af teygjubyssu og dauðum íkorna, sem deilt var í einum af hópunum. Sky News

Rannsókn Sky News hefur varpað ljósi á hópa á samskiptamiðlinum WhatsApp þar sem um 500 einstaklingar á Bretlandseyjum, aðallega ungmenni, deilir myndum og myndskeiðum þar sem dýr eru skotin, særð og drepin með teygjubyssum.

Sum myndskeiðin sýna dýrin heyja langt dauðastríð en á öðrm má sjá fólk misþyrma dýrunum eftir að hafa skotið þau, þangað til þau drepast. Þá stilla sumir sér upp með hræjum dýranna.

Bresku dýraverndarsamtökin RSPCA segja myndefnið hryllilegt en um sé að ræða nýtt „trend“. Samkvæmt Sky News hefur málið orðið til þess að kallað hefur verið eftir því að teygjubyssur verði gerðar ólöglegar.

Meðal þeirra dýrategunda sem hafa orðið fyrir barðinu á hópnum eru íkornar, refir, grísir og fuglar á borð við dúfur, endur og gæsir. Sky News hefur eftir talsmönnum einna dýraverndarsamtaka að veruleg aukning hafi orðið á dýrum sem hafa verið særð með teygjubyssum.

Haft er eftir sjálfboðaliðanum Danni Rogers að sárin séu ljót og oftast á höfði eða hálsi fuglanna, sem sé til marks um að ætlunin hafi verið að drepa dýrin. Skotfærin eru oft rær úr stáli og á röntgenmyndum má sjá þær í skrokk dýranna, meðal brotinna beina.

Í frétt um málið á vef Sky News má finna nokkrar af þeim myndum sem hefur verið deilt í WhatsApp hópunum og er óhætt að segja að þær séu mjög óhugnanlegar. Þá er einu myndskeiðanna lýst, þar sem barn stendur yfir dádýri þar sem það liggur og kippist til á jörðinni, með alvarlega höfuðáverka. 

Barnið sparkar svo í dýrið.

Samkvæmt umfjöllun miðilsins virðast börn á grunnskólaaldri vera meðlimir í umræddum hópum.

Metro hefur einnig fjallað um málið en benti á það í tengslum við aðra frétt, þar sem sagði frá níu ára dreng í Hollandi sem lagði leið sína í húsdýragarð og kyrkti þar níu kanínur og tvo naggrísi til dauða.

Hér má finna frétt Sky News en við vörum við myndefninu í fréttinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×