Erlent

Biden og Netanyahu ræddu stöðu mála í fyrsta sinn í meira en mánuð

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Forsetarnir töluðu saman í síma í fyrsta sinn í meira en mánuð en þeir hittust síðast í október síðastliðnum.
Forsetarnir töluðu saman í síma í fyrsta sinn í meira en mánuð en þeir hittust síðast í október síðastliðnum. Getty/Anadolu/GPO

Bandaríkjamenn segja Marwan Issa, næstæðsta leiðtoga hernaðararms Hamas, hafa fallið í árásum Ísraelsmanna á göng sem lágu undir Nuseirat flóttamannabúðunum.

Greint hafði verið frá dauðsfallinu í miðlum í Ísrael en Hamas-samtökin hafa ekki staðfest fregnirnar.

Issa er sagður hafa átt þátt í árásum Hamas á byggðir Ísraelsmanna 7. október síðastliðinn, þar sem 1.200 voru myrtir, meirihlutinn almennir borgarar. Hann er æðsti leiðtogi Hamas sem hefur verið drepin í árásum Ísraelsmanna en meðal annarra má nefna Saleh al-Arouri, pólitískan leiðtoga samtakanna, sem lést í Beirút.

Ísraelsmenn eru taldir hafa borið ábyrgð á sprengingunni sem varð al-Arouri að bana.

Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafi Hvíta hússins, staðfesti dauða Issa og sagði aðra leiðtoga Hamas í felum djúpt í gangakerfi samtakanna á Gasa. Hét hann stuðningi Bandaríkjanna við Ísraelsmenn í viðleitni þeirra til að hafa upp á háttsettum Hamas-liðum.

„Réttlætið mun líka finna þá,“ sagði hann.

Sullivan greindi þó einnig frá því að Joe Biden Bandaríkjaforseti og Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, hefðu átt hreinskiptið samtal í síma, það fyrsta í meira en mánuð. Þar hefði forsetinn meðal annars ítrekað óánægju sína með mannfall meðal almennra borgara á Gasa.

Biden hefði ítrekað stuðning Bandaríkjanna við Ísrael og rétt Ísraelsmanna til að „fara á eftir“ Hamas en einnig sagt það mistök af hálfu Ísrael að ætla að ráðast inn í Rafah. Aðgerðin myndi leiða til meira mannfalls, aukinnar mannúðarkrísu og einangrunar Ísraels á alþjóðlega sviðinu.

Þá hvatti Biden Netanyahu til að leggja fram skýra áætlun um endalok átaka á Gasa og framhaldið.

Sullivan sagði Ísraelsmenn jafnframt hafa samþykkt að senda háttsetta embættismenn til Washington til skrafs og ráðagerða og að væntingar Bandaríkjanna væru að ekki yrði ráðist inn í Rafah á meðan þeir fundir stæðu yfir.

BBC greindi frá.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×