Erlent

Ís­land meðal ör­fárra ríkja sem standast við­mið WHO um loft­gæði

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Loftgæði eru afleit í mörgum stórborgum Asíu.
Loftgæði eru afleit í mörgum stórborgum Asíu. Getty/CFOTO/Future Publishing

Ísland er eitt aðeins sjö ríkja sem standast viðmið Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar þegar kemur að loftgæðum. Hin ríkin eru Ástralía, Eistland, Finnland, Grenada, Máritíus og Nýja Sjáland.

Um er að ræða niðurstöður rannsókna IQAir, fyrirtækis í Sviss sem sérhæfir sig í vörnum gegn loftmengun. Rannsóknin náði til 134 ríkja og byggði á gögnum úr yfir 30 þúsund mælistöðvum um allan heim.

Það sem var til skoðunar var magn PM2,5 smáagna sem berast meðal annars út í andrúmsloftið frá umferð og gróðureldum. Ríkin sjö voru þau einu þar sem magn þessara agna var innan viðmiða WHO.

Mengunin var mest í Pakistan, þar sem magn PM2,5 var fjórtán sinnum meira en viðmið WHO kveða á um en næst á eftir komu Indland, Tajikistan og Búrkína Fasó. Kanada kom verst út meðal Vesturlanda en það er sagt mega rekja til gríðarmikilla gróðurelda sem geisuðu í fyrra.

Áætlað er að um sjö milljónir manna látist á ári hverju sökum loftmengunar og ástandið er verst í ríkjum þar sem menn neyðast til að reiða sig á „óhreina orkugjafa“ á borð við kol.

Þrátt fyrir viðmið WHO benda rannsóknir til þess að það sé í raun ekkert sem kalla megi „öruggt magn“ PM2,5 agna í andrúmsloftinu, þar sem aðeins örlítið magn auki fjölda sjúkrahúsinnlagna vegna öndunarfæra- og hjartasjúkdóma.

Ítarlega umfjöllun um málið má finna á vef Guardian.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×