Erlent

Trump í dómsal í Flórída

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump reynir að fá skjalamálið svokallaða fellt niður.
Donald Trump reynir að fá skjalamálið svokallaða fellt niður. AP/Eduardo Munoz Alvarez

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna og forsetaframbjóðandi, er í Flórída í dag þar sem lögfræðingar hans reyna að sannfæra dómara um að hann hafi ekki brotið lög þegar hann tók opinber gögn og leynileg skjöl með sér úr Hvíta húsinu. Hann vill að málið verði fellt niður.

Í skjalamálinu svokallaða er Trump sakaður um að hafa tekið opinber gögn í leyfisleysi og um að hafa reynt að koma í veg fyrir að gögnin yrðu sótt á Mar-a-Lago, sveitaklúbb og heimili Trumps í Flórída. Lögmenn hans segja að meirihluti ákæranna í málinu séu ólögmætar vegna þess að þær snúist um opinber störf hans sem forseta og því njóti hann friðhelgi.

Sjá einnig: Krefst einnig friðhelgi í skjalamálinu

Eftir að Richard Nixon, fyrrverandi forseti, reyndi að eyða opinberum gögnum sem tengdust Watergate-hneykslinu voru samin lög sem á ensku kallast Presidential Records Act. Þau lög segja öll opinber gögn forseta í eigu almennings og að þeim beri að skila til þjóðskjalasafns Bandaríkjanna þegar forsetar láta af embætti.

Opinber gögn fundust á víð og dreif um Mar-a-Lago, heimili og sveitaklúbb Trumps í Flórída. Þar á meða inn á klósetti.AP/Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna

Lögmenn Trumps halda því fram að sem forseti hafi hann getað skilgreint sérstök gögn sem hans einkaeign, samkvæmt PRA lögunum. Dómsmálaráðuneytið hefur áður harðlega gagnrýnt þann málflutning á þeim grunni að það fari beinlínis gegn tilgangi laganna.

Sjá einnig: Starfsmaður Trumps dró framburð sinn til baka eftir að hann skipti um lögmann

Trump og hans fólk hafa ítrekað haldið því fram að hann hafi svipt leynileg skjöl sem hann tók með sér leynd, sem honum var heimilt sem forseta, en þau hafa aldrei getað sannað það með. Þau hafa einnig haldið því fram að sem forseti hafi honum verið frjálst að skilgreina gögnin sem hans einkaeign og taka þau með sér.

Saksóknarar Jack Smith, sérstaks rannsakanda, dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna, segja reglurnar sem Trump vísar til ekki eiga við leynileg skjöl og þar að auki sé hann ekki ákærður fyrir að taka með sér persónuleg gögn.

Saksóknarar segja reglur um opinber gögn ekki verja Trump gegn lögunum né heimila honum einhliða að eigna sér leynileg skjöl. Þá megi hann ekki á þeirra grunni reyna að hindra framgang opinberrar rannsóknar.

Dómarinn Aileen M. Cannon, sem skipuð var í embætti af Trump sjálfum, mun hlusta á málflutning í dag og úrskurða svo í málinu í kjölfarið. Hvenær það verður liggur ekki fyrir. Hún hefur áður verið gagnrýnd fyrir að taka umdeildar ákvarðanir Trump í vil í þessu máli.

Trump og lögmenn hans hafa lagt mikið púður í það að reyna að tefja öll fjögur dómsmálin sem að honum beinast þessa dagana. Takist honum að tefja réttarhöldin fram yfir kosningar og sigri hann Joe Biden, gæti hann beitt völdum embættisins til að stöðva málaferlin gegn honum eða jafnvel náða sjálfan sig.

Donald Trump hefur verið ákærður fjórum sinnum.

Jack Smith, sérstakur rannsakandi dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna, hefur ákært Trump í tveimur málum. Annað þeirra snýr að viðleitni hans til að snúa úrslitum forsetakosninganna í Bandaríkjunum árið 2020 á landsvísu. Réttarhöldin áttu að hefjast 4. mars en hefur verið frestað um óákveðinn tíma.

Hitt snýr að opinberum gögnum og leynilegum skjölum sem hann tók með sér úr Hvíta húsinu þegar hann flutti til Flórída og neitaði að afhenta. Réttarhöldin eiga að hefjast í maí.

Hann hefur einnig verið ákærður í New York fyrir brot á lögum um kosningar vegna þagnargreiðslu til klámmyndaleikkonunnar Stormy Daniels. Réttarhöldin eiga að hefjast 25. mars.

Trump hefur þar að auki verið ákærður í Georgíu og fyrir að reyna að snúa úrslitum kosninganna þar. Ekki er búið að ákveða hvenær réttarhöldin í Georgíu eiga að hefjast en búið er að ákveða að sýnt verði frá þeim í beinni útsendingu.


Tengdar fréttir

Vilja fá saksóknara til að rannsaka Biden

Repúblikanar í fulltrúadeild Bandaríkjaþings standa nú frammi fyrir því að tilraunir þeirra til að ákæra Joe Biden, forseta, fyrir meint embættisbrot muni misheppnast. Þeim hefur ekki tekist að sýna fram á að Biden hafi brotið af sér í starfi og þau atkvæði þingmanna sem þarf til að ákæra hann.

Felldi niður ákæruliði gegn Trump og félögum í Georgíu

Dómari í Georgíu felldi í dag óvænt sex ákæruliði niður af 41 í dómsmáli ríkisins gegn Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, og bandamanna hans. Ákæruliðirnir snúa meðal annars að símtali Trumps til innanríkisráðherra Georgíu, þar sem hann beitti hann þrýstingi um að snúa úrslitum kosninganna í ríkinu árið 2020.

Hættir óvænt á þingi: „Þessi staður snýst um deilur og vitleysu“

Ken Buck, þingmaður Repúblikanaflokksins frá Colorado, tilkynnti óvænt í gærkvöldi að hann ætlaði að hætta á þingi þann 22. mars. Í viðtali í kjölfar yfirlýsingarinnar hefur hann farið hörðum orðum um Repúblikana og segir þingið hafa snúist upp í deilur og vitleysu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×