„Það er í alvarlegri skoðun að kæra þessa ákvörðun,“ segir Eva Bryndís Helgadóttir, lögmaður konunnar, í svari við fyrirspurn Vísis. Héraðssaksóknari felldi mál Alberts niður þann 22. febrúar síðastliðinn og því rennur fjögurra vikna kærufrestur út 22. þessa mánaðar.
Þann 21. leikur íslenska karlalandsliðið að óbreyttu umdeildan umspilsleik við Ísrael. Á föstudag verður val lansliðsþjálfara á hópnum fyrir leikinn kynnt á blaðamannafundi. Stærsta spurningamerkið er hvort tilkynnt verði um endurkomu Alberts í landsliðið en hann hefur ekki leikið fyrir það síðan hann var kærður í lok ágúst síðastliðinn.
Samkvæmt samþykkt KSÍ frá árinu 2022 skal haft að leiðarljósi það meginviðmið, þegar mál einstaklinga eru til meðferðar hjá rannsóknar- eða ákæruvaldi og/eða samskiptaráðgjafa, vegna meintra alvarlegra brota, skuli viðkomandi stíga til hliðar í hlutverki sínu hjá KSÍ á meðan meðferð máls stendur yfir.