Íslenski boltinn

Sér­stök hvatning veitt Grind­víkingum á árs­þingi KSÍ

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Haukur Guðberg Einarsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, tók við viðurkenningunni.
Haukur Guðberg Einarsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, tók við viðurkenningunni. knattspyrnusamband íslands

Knattspyrnusamband Íslands veitti Ungmennafélagi Grindavíkur sérstaka hvatningu vegna þeirra áskorana sem Grindvíkingar hafa staðið og standa enn frammi fyrir. 

„Á því leikur enginn vafi að þær áskoranir sem íþróttastarfið í Grindavík stendur frammi fyrir þessi misserin virðast á köflum óyfirstíganlegar. Engu að síður standa forsvarsmenn UMFG keikir og úrræðagóðir og halda starfinu gangandi með ótrúlegri seiglu og ekki síður ómetanlegum stuðningi annarra íþróttafélaga. 

Knattspyrnuhreyfingin hefur lagt sitt af mörkum, stutt með ýmsum hætti við Grindvíkinga á þessum erfiðu tímum, og mun gera það áfram eins lengi og þarf“ sagði Klara Bjartmarz, fráfarandi framkvæmdastjóri KSÍ, á ársþinginu. 

Vanda Sigurgeirsdóttir afhenti verðlaunin en Haukur Guðberg Einarsson tók við þeim fyrir hönd Grindvíkinga. Fulltrúar aðildarfélaga risu þá úr sætum og veittu Grindvíkingum standandi lófaklapp. 

78. ársþing KSÍ fer fram í Úlfarsárdal. Kosið verður um nýjan formann síðar í dag og fylgst verður með gangi mála hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×