Fótbolti

Salah, De Bru­yne og Ca­semiro næstir á óska­lista Sádi-Arabíu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þessir þrír gætu yfirgefið ensku úrvalsdeildina í sumar.
Þessir þrír gætu yfirgefið ensku úrvalsdeildina í sumar. Getty Images

Það er nóg um digra sjóði í Sádi-Arabíu og ætlar PIF, fjárfestingasjóður ríkisins, að halda áfram að sækja stór nöfn til Evrópu þegar félagaskiptaglugginn opnar í sumar. Eru þeir Kevin de Bruyne, Mohamed Salah og Casemiro efstir á óskalistanum að svo stöddu.

Það er The Times sem greinir frá en þar segir að hinn 32 ára gamli De Bruyne sé efstur á óskalista PIF. Belgíski miðjumaðurinn hefur verið að glíma við meiðsli og er talið að mikið álag hjá Manchester City sé farið að taka sinn toll.

Hann verður 33 ára gamall í sumar og á þá aðeins ár eftir af samningi. Þó Man City sé ekki á flæðiskeri statt þegar kemur að fjármunum þá vill liðið forðast það að missa De Bruyne frá sér án greiðslu en síðasta sumar fór İlkay Gündoğan til Barcelona á frjálsri sölu.

Framherjinn Mohamed Salah var þrálátlega orðaður við deildina í Sádi-Arabíu en hann verður 32 ára gamall í sumar. Þá rennur samningur hans líka út sumarið 2025.

Casemiro fagnar 32. ára afmæli sínu í dag, 23. febrúar, en hann hefur átt gríðarlega erfitt uppdráttar það sem af er leiktíð. Hann var frá í nokkurn tíma vegna meiðsla og hefur virkað langt frá sínu besta þegar hann spilar.

Man United er sagt tilbúið að losa leikmanninn næsta sumar komi álitlegt tilboð í hann en hann kostaði félagið drjúgan skilding er hann kom frá Real Madríd sumarið 2022.

Ekki hefur komið fram hvaða félög eru á höttunum á eftir leikmönnunum þremur en ætli PIF stefni ekki á að deila þeim niður á þrjú félög svo þau séu hvað samkeppnishæfust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×