Erlent

Reyndi að selja efni í kjarn­orku­vopn til Írans

Samúel Karl Ólason skrifar
Takeshi Ebisawaer hér í Kaupmannahöfn að skoða vopn sem hann vildi kaupa í skiptum fyrir geislavirk efni sem hann hafði fengið frá leiðtoga uppreisnarhóps í Mjanmar.
Takeshi Ebisawaer hér í Kaupmannahöfn að skoða vopn sem hann vildi kaupa í skiptum fyrir geislavirk efni sem hann hafði fengið frá leiðtoga uppreisnarhóps í Mjanmar. AP/Ríkissaksóknari New York

Japanskur glæpaforingi reyndi að selja bandarískum flugumanni geislavirk efni sem hægt er að nota til að smíða kjarnorkusprengju. Glæpaforinginn vildi einnig kaupa vopn handa uppreisnarmönnum í Mjanmar og selja fíkniefni í New York.

Geislavirku efnin mun hinn sextugi Takeshi Ebisawa hafa fengið frá leiðtoga uppreisnarhóps í Mjanmar, sem einnig kallast Búrma. Uppreisnarhópar þar eiga í umfangsmiklum átökum við herforingjastjórn sem tók völd í landinu árið 2021.

Talið er að uppreisnarmennirnir hafi grafið efnin úr jörðu. Ebisawa bauðst til að selja efnin og kaupa í staðinn vopn fyrir uppreisnarhópinn.

Ebisawa bauð bandarískum löggæslumanni, sem sagðist geta komið efnunum til herforingja frá Íran, að kaupa úran og plútóníum sem hægt væri að nota efnin í kjarnorkusprengju. í staðinn vildi glæpaforinginn fá 6,85 milljónir dala og leitaðist hann einnig eftir því að fá vopn handa uppreisnarmönnunum.

Í ákærunni gegn Ebisawa, sem birt var í gær, segir að hann hafi viljað M60 vélbyssur og AK-47 árásarriffla.

Árið 2021 ferðaðist Ebisawa til Kaupmannahafnar þar sem hann hitti bandarískan og danska flugumenn til að skoða vopn sem honum var boðið að kaupa. Á sama tíma hittu menn á hans vegum bandarískan flugumann á hóteli í Taílandi, þar sem hann fékk að sjá sýni af geislavirku efnunum, samkvæmt frétt Washington Post.

Ebisawa og Taílenskur maður sem heitir Somphop Singhasiri og hefur einnig verið ákærður í málinu, reyndu svo einnig að selja hundruð kílóa af metamfetamíni og heróíni sem selja átti áfram í New York í Bandaríkjunum.

Mennirnir voru handteknir í New York í apríl 2022 ásamt tveimur öðrum mönnum sem að málinu koma.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×