Erlent

Biden kallar Pútín „tíkar­son“ og furðar sig á um­mælum Trump

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Biden tók sjálfu með stuðningsmanni þegar hann heimsótti kaffihús í Los Angeles í gær.
Biden tók sjálfu með stuðningsmanni þegar hann heimsótti kaffihús í Los Angeles í gær. AP/Manuel Balce Ceneta

Joe Biden Bandaríkjaforseti kallaði Vladimir Pútín Rússlandsforseta „brjálaðan tíkarson“ á fjáröflunarviðburði í San Francisco í gær, auk þess sem hann skaut á forvera sinn Donald Trump fyrir að bera sig saman við rússneska andófsmanninn Alexei Navalní.

Biden var að tala um loftslagsmál þegar hann sagði: 

„Við erum með brjálaða tíkarsyni eins og Pútín og fleiri og við þurfum alltaf að vera að hafa áhyggjur af kjarnorkustríði en loftslagsvandinn er það sem ógnar tilvist mannkynsins.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem forsetinn notar blótsyrðið en árið 2022 talaði hann óvarlega nálægt míkrafónum sem kveikt var á og notaði „tíkarsonur“ (e. son of a bitch) um fréttaritara Fox News í Hvíta húsinu.

Tilkynnt var um andlát Navalní á dögunum en hann dvaldi þá í fangelsi í Rússlandi og mörgum spurningum ósvarað um það hvernig dauða hans bar að. 

Trump lagði grunsamlegan dauða Navalnís að jöfnu við eigin vandræðagang fyrir dómstólum í Bandaríkjunum og sagði nýfallinn dóm, þar sem hann var dæmdur til að greiða 350 milljónir dala í sekt, vera einhvers konar „kommúnisma eða fasisma“.

„Sumt af því sem þessi náungi hefur verið að segja, eins og að bera sjálfan sig saman við Navalní, og segja að hann hafi verið ofsóttur, eins og Navalní var ofsóttur, af því að landið okkar sé orðið kommúnískt... Ég veit ekki hvað í fjáranum hann er að tala um,“ sagði Biden.

„Ég meina, ef ég hefði staðið hér fyrir tíu til fimmtán árum og sagt eitthvað af þessu, þið hefðuð öll talið að það ætti að leggja mig inn,“ bætti hann við.

Biden sagði sjálfur eftir dauða Navalní að jafnvel þótt menn vissu ekki hvernig hann hefði dáið mætti vafalítið rekja andlát hans til aðgerða Pútín og „þrjóta hans“.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×