Erlent

Rússar náðu yfir­ráðum í lofti yfir Avdívka

Samúel Karl Ólason skrifar
Úkraínskir hermenn að störfum í Dónetsk-héraði.
Úkraínskir hermenn að störfum í Dónetsk-héraði. AP/ROman Chop

Útlit er fyrir að hersveitum Rússa hafi tekist að ná yfirráðum í háloftunum yfir borginni Avdívka í austurhluta Úkraínu. Er það líklega í fyrsta sinn sem slíkt gerist frá því innrás Rússa í Úkraínu hófst í febrúar 2022.

Umfangsmiklar loftárásir eru sagðar hafa spilað rullu í þeirri ákvörðun Úkraínumanna að hörfa frá rústum borgarinnar og mynda nýjar varnarlínur vestur af henni.

Sérfræðingar bandarísku hugveitunnar Institute for the study of war segja útlit fyrir að Rússar hafi náð að tryggja sér staðbundna yfirburði í háloftunum yfir Avdívka. Þá yfirburði hafi þeir notað til að styðja framsókn rússneskra hermanna, meðal annars með umfangsmikilli notkun svokallaðra svifsprengja.

Rússar eiga mikið af gömlum sprengjum sem geta verið mjög stórar. Þeir hafa bætt vængjum við þær og staðsetningarbúnaði og er þeim varpað af flugvélum úr mikilli hæð. Þaðan geta sprengjurnar svifið allt að hundrað kílómetra áður en þær lenda á jörðinni með tiltölulega mikilli nákvæmni.

Úkraínskir hermenn segja að undanfarna daga hafi um sextíu slíkum sprengjum verið varpað á þá á dag í og við Avdívka.

Sjá einnig: Avdívka alfarið í höndum Rússa

Rússneskir herbloggarar hafa margir vísað til þessara sprengjuárása sem helstu ástæðu þess að Rússum hafi loks tekist að stökkva Úkraínumönnum á flótta, eftir umfangsmiklar árásir frá því í október.

Úkraínumenn glíma við mikinn skort á skotfærum fyrir stórskotalið en þá skortir einnig flugskeyti í loftvarnarkerfi. Þennan skort má að miklu leyti rekja til pólitískra deilna í Bandaríkjunum en þaðan hefur engin hernaðaraðstoð verið send til Úkraínu um mánaða skeið.

Sjá einnig: Gera aðra tilraun með hernaðaraðstoð

Þessi flugskeytaskortur hefur mögulega komið niður á vörnum Úkraínumanna yfir Avdívka og leitt til yfirráða Rússa. Úkraínumenn segjast þó hafa skotið niður þrjár herþotur nærri Avdívka á undanförnum dögum.

Rússar hafa sagt þessar fregnir rangar en myndbönd sem birt hafa verið á samfélagsmiðlum gefa til kynna að minnst tvær herþotur hafi verið skotnar niður.


Tengdar fréttir

Minnisvarðar um Navalní fjarlægðir og hundrað handteknir

Blómvendir sem almenningur í Rússlandi hefur lagt niður við minnisvarða víðsvegar um Rússland, eftir að Alexei Navalní dó í fangelsi í Síberíu í gær, voru víða fjarlægðir af óeinkennisklæddum mönnum. Í einhverjum tilfellum horfðu lögregluþjónar á.

Úkraínumenn að hörfa frá Avdívka

Úkraínskir hermenn virðast vera að hörfa frá borginni Avdívka eða hluta hennar, í austurhluta Úkraínu, eftir umfangsmiklar árásir Rússa á borgina frá því í október. Skotfæraleysi hefur leikið úkraínska hermenn grátt á undanförnum vikum en Úkraínumenn eru sömuleiðis sagðir glíma við skort á hermönnum.

„Ef þið borgið ekki, ætla ég ekki að verja ykkur“

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna og væntanlegur forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, ítrekaði í gær að ef hann sneri aftur í Hvíta húsið, myndi hann ekki koma ríki í Atlantshafsbandalaginu til varnar í tilfelli árásar, nema þetta tiltekna ríki „borgaði“.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×