Innlent

Vita ekki hvar í heiminum Pétur gæti verið staddur

Bjarki Sigurðsson skrifar
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu, og Pétur Jökull Jónasson.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu, og Pétur Jökull Jónasson. Vísir/Arnar/Interpol

Íslendingur sem Interpol lýsir eftir er ekki talinn hættulegur en tengist einu stærsta fíkniefnamáli Íslandssögunnar. Lögreglan veit ekki hvar í heiminum hann er staddur. 

Í gær tilkynnti lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að lýst væri eftir 45 ára Íslendingi, Pétri Jökli Jónassyni, á vef Interpol. Eftirlýsingin var birt að beiðni lögreglunnar hér á landi og tengist Stóra-kókaínmálinu svokallaða.

Ekki algengasta úrræði lögreglunnar

Fjórir menn hafa fengið dóm vegna málsins en Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu, vill ekki gefa upp hvernig Pétur tengist málinu nákvæmlega.

„Raunverulega er þetta úrræði sem við höfum þegar við náum ekki sambandi við fólk sem við þurfum að ná sambandi við, þá er þetta eitt úrræði, þetta er kannski frekar aftarlega að nota þetta. Við reynum að ná sambandi við einhvern, til dæmis fyrrverandi verjendur. Til að ná sambandi við viðkomandi og hvetja viðkomandi til að koma heim til þess að koma í skýrslutöku. Þegar það tekst ekki, þá er þetta úrræði sem við höfum úr að spila og erum að nota núna,“ segir Grímur. 

Vita ekkert hvar hann gæti verið

Pétur hefur áður verið dæmdur fyrir kókaíninnflutning en lögreglan veit ekki hvar í heiminum hann er staddur.

„Ég vil ekki fara neitt út í hans aðild að málinu og hver hún er. Við viljum bara ná tali af honum í tengslum við þetta mál og förum þessa leið sem er bara eitt af þeim úrræðum sem við höfum úr að spila,“ segir Grímur.

Pétur er ekki talinn hættulegur og er eftirlýsingin bundin við þetta eina mál.

„Hvað varðar þessa eftirlýsingu þá er hún bara varðandi þetta mál og ekkert annað,“ segir Grímur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×