Erlent

Þúsundir tonna af metangasi láku út í and­rúms­loftið á sex mánuðum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lekinn átti sér stað úr borholu í Mangistau í Kasakstan.
Lekinn átti sér stað úr borholu í Mangistau í Kasakstan. Getty

Áætlað er að um 127 þúsund tonn af metangasi hafi sloppið út í andrúmsloftið eftir að eldur kviknaði í kjölfar sprengingar í borholu í Kasakstan. Eldurinn geisaði í sex mánuði og áhrif losunarinnar sögð jafngilda árslosun 717 þúsund bensínbifreiða.

Forsvarsmenn fyrirtækisins sem eiga borholuna neita því að „umtalsvert magn“ metans hafi sloppið út.

BBC segir um að ræða einn stærsta metanleka sögunnar og hefur eftir Manfredi Caltagirone, yfirmanni stofnunar Sameinuðu þjóðanna sem hefur eftirlit með metanlosun, að umfang og tímalengd lekans séu óvenjuleg.

Lekinn er sagður hafa hafist 9. júní í fyrra þegar sprenging átti sér stað við borun tilraunaholu í Mangistau í suðvesturhluta Kasakstan. Eldur kviknaði við sprenginguna og ekki náðust tök á honum fyrr en undir lok desember.

Yfirvöld á svæðinu hafa sagt BBC að unnið sé að því að innsigla brunninn með steypu.

Sumir gervinhnettir geta numið metan og það var rannsókanrfyrirtækið Kayrros sem varð fyrst vart við lekann. Greiningar fyrirtækisins hafa verið staðfestar af stofnunum í Hollandi og á Spáni.

Metangas skilur eftir sig „fingrafar“ þegar sólarljós fellur á það, sem gervihnettirnir nema, og það gerðist alls 115 sinnum á tímabilinu júní til desember.

Útfrá gögnum mátu vísindamenn að losunin hefði numið um 127 þúsund tonnum.

Luis Guanter, við Polytechnic University of Valencia, segir að aðeins Nord Stream-lekinn sem uppgötvaðist árið 2022 hafi valdið meiri losun.

Samkvæmt Alþjóðaorkumálastofnuninni má rekja um 30 prósent af hækkun lofthita frá tímum iðnbyltingarinnar til metanlosunar.

Ítarlega frétt um málið má finna á vef BBC.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×