Íslenski boltinn

Arna Sif fór meidd af velli: „Kom bara ein­hver smellur í hnéð“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Arna Sif var valin besti leikmaður deildarinnar síðastliðin tvö tímabil.
Arna Sif var valin besti leikmaður deildarinnar síðastliðin tvö tímabil. Vísir/Vilhelm

Valur vann öruggan 5-1 sigur á Fylki í Lengjubikarnum í kvöld. Fyrirliðinn Arna Sif Ásgrímsdóttir fór meidd af velli í fyrri hálfleik. Óttast er að um krossbandsslit sé að ræða. 

„Er ennþá að bíða eftir því að komast í skoðun, þannig að það er ekkert hægt að segja strax. Reyni að vera jákvæð, vona það besta“ sagði Arna Sif þegar blaðamaður náði tali af henni. 

Ekkert óvenjulegt gerðist í aðdraganda meiðslanna og Arna varð ekki fyrir höggi af völdum andstæðings. 

„Ég er í rauninni bara að stíga upp með framherjanum og ætla að reyna að pikka boltanum með hægri fæti og stíg þá í vinstri og það kom bara einhver smellur í hnéð. “

Smellur í hné boðar yfirleitt ekki gott en of snemmt er að segja til um alvarleika meiðslanna að svo stöddu. Arna mun gangast undir frekari rannsóknir á næstunni. Ef um krossbandsslit er að ræða má reikna með fjarveru í 6 mánuði að minnsta kosti, algengt er að leikmenn séu töluvert lengur frá ef gangast þarf undir aðgerð. 

Fari svo yrði það gríðarleg blóðtaka fyrir Íslandsmeistarana á komandi keppnistímabili. Arna er ekki einungis fyrirliði Vals heldur hefur hún verið kjörin allra besti leikmaður deildarinnar undanfarin tvö ár af sérfræðingum Stöðvar 2 Sport. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×