Erlent

Trump harð­lega gagn­rýndur fyrir boð til Rússa um að ráðast gegn Nató

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Stoltenberg sagði ummæli á borð við þau sem Trump hefði látið falla grafa undan Atlantshafsbandalaginu.
Stoltenberg sagði ummæli á borð við þau sem Trump hefði látið falla grafa undan Atlantshafsbandalaginu.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, segir bandalagið reiðubúið og viljugt til að vernda alla bandamenn sína, eftir að greint var frá því að Donald Trump hefði eggjað Rússa til að ráðast á þau ríki sem ekki legðu nægt fjármagn til varnarmála.

Trump sagði í ræðu á kosningafundi í Suður-Karólínu á laugardag að hann byði Rússum að ráðast gegn hverju því aðildarríki Nató sem honum þætti ekki vera að leggja sitt af mörkum fjárhagslega til bandalagsins.

Hvíta húsið sagði ummæli Trump „forkastanleg og brjáluð“.

Trump hélt því fram á kosningafundinum að þegar hann var forseti hefði hann átt orðaskipti við annan þjóðarleiðtoga á ótilgreindum Nató-fundi og sagt að Bandaríkin, undir hans stjórn, myndu ekki koma þeim ríkjum til varnar sem væru í skuld við bandalagið.

„Einn forseti stórs ríkis stóð upp og sagði: Jæja, herra, ef við greiðum ekki og Rússland ræðst á okkur, ætlar þú að koma okkur til varna? Ég sagði: Þú borgaðir ekki, þú skuldar?“ sagði Trump. „Nei, ég myndi ekki koma ykkur til varna. Ég myndi raunar hvetja [Rússa] til að gera hvað sem þeir í fjáranum vildu. Þú verður að borga. Þú verður að borga reikningana þína.“

Stoltenberg sagði í yfirlýsingu í kjölfarið að allar fullyrðingar í þá átt að aðildarríki Nató gripu ekki öll til varna þegar ráðist væri á eitt þeirra græfi undan öryggi allra, meðal annars Bandaríkjanna, og stofnaði hermönnum þeirra og Evrópu í hættu.

„Ég geri ráð fyrir því að óháð því hver sigrar í forsetakosningunum þá verði Bandaríkin áfram sterkur og skuldbundinn bandamaður.“

Fleiri hafa brugðist við ummælum Trump, meðal annars varnarmálaráðherra Póllands, sem sagði mottó Nató um „einn fyrir alla og alla fyrir einn“ fela í sér skuldbindingu sem væri meitluð í stein. Þá sagði Charles Michel, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins að „ábyrgðalausar yfirlýsingar“ um öryggi og samstöðu aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins gerðu ekkert nema þjóna hagsmunum Vladimir Pútín Rússlandsforseta.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×