Erlent

Hafnar kröfum um vopna­hlé og spáir fullnaðarsigri

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Netanyahu kom fram á blaðamannafundi í dag vegna vopnahlésviðræðna. 
Netanyahu kom fram á blaðamannafundi í dag vegna vopnahlésviðræðna.  EPA

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael hafnaði í dag vopnahléstillögu Hamas. Þá sagði hann fullnaðarsigur á Gasa væntanlegan á næstu mánuðum. 

Netanyahu kom fram á blaðamannafundi í dag eftir að Hamas-skamtökin höfðu lagt fram kröfu um vopnahlé á Gasa. Hamas gerðu kröfu um fjögurra og hálfs mánaða langt vopnahlé. Meðan á því stæði yrðu allir gíslar í haldi þeirra látnir lausir, hermenn Ísraelshers myndu yfirgefa Gasa. Þá næðist samkomulag um stríðslok.

Tillaga Hamas var mótsvar við vopnahléstillögu sem bandarískir og ísraelskir njósnaforingjar sömdu og sáttasemjarar frá Katar og Egyptalandi afhentu samtökunum í síðustu viku.

Blinken vongóður

Á fundinum sagði Netanyahu samningaviðræður við Hamas gengið brösuglega og sagði kröfur samtakanna fáránlegar. Samningaviðræðum er þó ekki lokið og enn er unnið í von um að samkomulag náist.

„Það er engin önnur lausn en endanlegur sigur,“ sagði Netanyahu á blaðamannafundinum. „Ef Hamas-samtökin lifa af í Gasa er einungis tímaspursmál hvenær næsta fjöldamorð á sér stað.“

Anthony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna er staddur í Tel Aviv og kom fram á blaðamannafundi fyrr í kvöld. Þar sagðist hann enn vongóður um að vopnahléssamningur næðist. Hann sagðist sjá möguleika í þeim tillögum sem Hamas höfðu sent til baka og að ætlunin væri að ná fram vopnahléi. 

Sami Abu Zuhri, talsmaður Hamas, lýsti ummælum Netanyahu sem pólitískum mannalátum sem sýndu ásetning forsætisráðherrans að halda áfram átökum á svæðinu.

Annar talsmaður Hamas, Osama Hamdan, sagði sendinefnd Hamas munu ferðast til Kaíró á morgun til frekari viðræðna um vopnahlé við sáttasemjara Egyptalands og Katar. Hamdan hvatti jafnframt hersveitir Palestínumanna til frekari bardaga. 


Tengdar fréttir

Nánast allir í­búar Gasa reiða sig á okkur

Gréta Gunnarsdóttir, yfirmaður UNRWA í New York, segir starfsemi stofnunarinnar falla um sjálfa sig í lok mánaðarins ef þau ríki sem ætla sér að fresta framlögum til stofnunarinnar láta verða af því. Tvær milljónir manna á Gasa reiða sig á stofnunina en auk þess starfar hún á Vesturbakkanum í Palestínu og í Jórdaníu og Sýrlandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×